Tuðaði mamma þín í þér þegar þú varst unglingur?
Og þú þoldir það ekki – ekki satt?
Nöldrar þú ef til vill líka í þinni eigin dóttur?
Gengur betur
Núna geturðu kannski þakkað móður þinni fyrir nöldrið því rannsóknir sýna fram á að unglingsstúlkur sem eiga mæður sem nöldra í þeim og gera ákveðnar kröfur til þeirra gengur betur í lífinu.
Ekki fá samviskubit yfir nöldrinu
Rannsókn sem framkvæmd var í Háskólanum í Essex á Englandi á unglingsstúlkum þykir sýna að ýtnir foreldrar geti haft jákvæð áhrif á stúlkurnar og þeirra framtíð. Þáttakendur voru 15.550 stúlkur á aldrinum 13 til 14 ára og tók rannsóknin yfir sex ár, frá árinu 2004 til ársins 2010. Þeir sem stóðu að rannsókninni komust að því að stúlkur sem áttu mæður sem gerðu miklar kröfur til dætra sinna og settu markið hátt voru líklegri til að fara í háskóla, fá betra starf og hærri laun. Þá voru þessar sömu stúlkur mun ólíklegri til að verða ófrískar á unglingsárunum.
Ég sagði það!
Svo ef þú ert stundum þreytt á sjálfri þér, og finnst þú nöldra full mikið og gera of miklar kröfur, þá geturðu huggað þig við það að þú ert líklega að gera dóttur þinni gott – þótt hún skelli hurðum og segist ekki þola þig. Hún á eftir að þakka þér seinna – eða við skulum vona það.
Þú getur þá alla vega sagt; ég sagði þér það!