Í gegnum tíðina hefur það ekki þótt neitt sérstaklega eftirsóknarvert að vinna við ofhlaðið skrifborð þar sem úir og grúir af alls kyns dóti.
Hefur það gjarnan verið tengt við ringulreið – og fólk sem vinnur við þannig aðstæður talið vera óskipulagt með flöktandi huga. Þess vegna hefur því verið haldið fram að auðveldara sé að vinna og skapa í umhverfi þar sem allt er í röð og reglu og auðvitað snyrtilegt.
En er þetta virkilega svona einfalt?
Sálfræðingar við háskólann í Minnesota í Bandaríkjunum telja að þetta sé ekki alveg svona einfalt með ringulreiðina og snyrtilegheitin.
Í rannsókn sem framkvæmd var við skólann kom í ljós að þeir sem unnu við allt í röð og reglu voru líklegri til að gefa til líknarmála og völdu frekar hollari kostinn þegar þeim var boðið að velja á milli þess að fá sér epli eða súkkulaðistykki.
Á meðan 82% þeirra sem unnu á snyrtilegri skrifstofu vildu gefa til líknarmála völdu ekki nema 47% þeirra sem unnu í draslinu að gefa. Og 67% þeirra í snyrtilegheitunum völdu eplið en aðeins 20% þeirra sem unnu í draslinu gátu staðist súkkulaðistykkið. Í þessu höfðu þeir sem unnu í snyrtilega umhverfinu vinninginn.
En þeir sem vinna í draslinu eru víst hugmyndaríkari
En þegar svo kom að hugmynda- og sköpunarvinnu kom í ljós að báðir hópar komu fram með jafnmikið af hugmyndum. Hins vegar þegar farið var að skoða hugmyndirnar var augljóst að þeir sem unnu í ringulreiðinni voru með mun áhugaverðari og skapandi hugmyndir. Einnig voru þeir nýjungagjarnari og höfðu áhuga á því sem nýtt er. Og þegar báðir hópar voru látnir velja á milli tveggja framleiðsluvara, þar sem önnur varan var þekkt en hin alveg ný vara, völdu þeir úr ringulreiðinni frekar nýju vöruna á meðan hinir völdu það sem þeir þekktu.
Þetta þykir sýna að umhverfi sem er ekki of niðurnjörvað í snyrtilegheitum, og þar sem ríkir örlítil ringulreið, hefur hvetjandi áhrif á einstaklinga til að slíta sig lausa frá hefðum og venjum og um leið örva ferska og nýja sýn. Á meðan skipulagða umhverfið hins vegar þykir hvetja til þess hefðbundna og velja öruggu leiðina
Og svona er þetta
Niðurstaðan úr þessari rannsókn er því sú að snyrtilegheitin geta jú gert þig að betri og jafnvel hraustari manneskju – en ef þú vilt vera þessi skapandi týpa þá er greinilega betra fyrir þig að hafa allt í drasli og ekkert vera að stressa þig á því að vera að taka til á borðinu þínu eða í kringum þig.