Margar mæður þekkja það eflaust að fá ekki þá hvíld sem þær þarfnast. Öll orkan fer í að sinna börnunum og fjölskyldunni og móðirin lætur sjálfa sig sitja á hakanum – sem er ansi algengt mynstur.
Húsmæðraorlof
En samkvæmt sálfræðingum þá þarfnast mæður þess virkilega að taka sér „húsmæðraorlof“. Fyrir þá sem ekki þekkja orðið húsmæðraorlof þá þýðir það einfaldlega að mæður fari einar í frí, sem sagt án barna og maka. Og þá með öðrum mæðrum sem þekkja og skilja þarfir og kosti þess að taka sér sinn tíma til að hugsa eingöngu um sjálfan sig og veita sjálfum sér athygli.
Samkvæmt sérfræðingunum þá gagnast slíkt mæðraorlof ekki aðeins móðurinni sjálfri heldur er það allri fjölskyldunni til hagsbóta. Mikilvægt sé t.d. fyrir börn að sjá og upplifa þetta jafnvægi sem er svo mikilvægt að ná í fjölskyldulífinu, þ.e. jafnvægi á milli vinnu og hvíldar.
Fullt starf
Mikilvægt er að gera sér grein fyrir því að móðurhlutverkið er fullt starf. Oftast er það þannig að móðirin sér um mat, þvott, passar upp á að allir séu á réttum stað á réttum tíma, fylgir eftir öllu því er tengist skóla og námi, eldar, verslar inn og svo ótal margt fleira. Í huga margra mæðra er hugmyndin um að taka sér frí frá öllu þessu eitthvað svo eigingjörn og sjálfhverf.
En það er engu að síður ákaflega mikilvægt að skilja að það er gott fyrir móðurina að taka sér sitt frí. Nokkrir dagar í burtu frá öllu þessu er kannski eins og fjarlægur draumur en hins vegar alveg óskaplega hollt og gott fyrir móðurina. Þá getur hún einbeitt sér að sjálfri sér og leyft sér að hugsa um ekki neitt. Og þegar hún kemur aftur heim er hún endurnærð og spennt að hitta fólkið sitt.
En af ýmsum ástæðum getur verið erfitt að komast í burtu í nokkra daga. Þá eru aðrar leiðir sem mæður geta nýtt sér til að fá örlítinn frið og frí – þótt ekki nema í stutta stund sé.
Hér eru góðar hugmyndir
1. Að taka sér einn frídag í mánuði. Heilan dag án þess að hugsa um hvað þú þarft að gera og hverjum þarf að sinna. Fáðu aðra til að taka verkefni þín að sér og svo er eflaust margt sem getur setið á hakanum þennan eina dag. Taktu þér þinn dag og gerðu það sem þig langar til. Eyddu deginum úti í náttúrunni, í sundlaugunum, í búðum, með vinkonunum eða hvað það sem þig langar til.
2. Að taka einn morgunn í hverri viku fyrir sjálfa þig. Þegar við eignumst börn þurfum við að kveðja laugardaga og sunnudaga – þessa daga sem maður notaði í að gera það sem mann langaði til. Gefðu sjálfri þér einn morgun í hverri viku þar sem þú getur endurhlaðið orkuna og átt þína stund. Skelltu þér í snyrtingu, í jóga, lestu bók eða hvaðeina sem veitir þér ánægju og hleður batteríin.
3. Ekki vera í húsverkunum alla daga vikunnar. Auðvitað er sumt sem maður vill gera á hverjum degi – en það er margt sem getur beðið. Það er talið mun betra fyrir geðheilsuna að taka ákveðna daga í heimilisstörfin heldur en að vera í þeim daglega, því þá myndast gjarnan sú tilfinning að þér finnist þú ekki gera neitt annað en að þrífa og taka til.
4. Taktu tíma í að skipuleggja, plana og gera húsmæðraorlofið að veruleika. Því þótt það geti verið afskaplega gott að slaka á heima og í raun algjörlega nauðsynlegt þá jafnast fátt á við það að komast aðeins í burtu. Leggðu fyrir og finndu rétta tímann fyrir þitt frí. Því staðreyndirnar tala sínu máli og þær segja að þær mæður sem leyfi sér slíkt komi heim endurnærðar, þolinmóðari, betri mæður og betri eiginkonur. Tveir dagar í burtu geta gert alveg heilan helling fyrir þig!