Aðventan og smákökur er algjörlega samofið enda afar notalegt að gæða sér á litlum kökum með mjólk eða kakói í skammdeginu.
Mér finnst alveg einstaklega gaman að baka smákökur og prófa nýjar uppskriftir – og eru súkkulaðibitakökur í miklu uppáhaldi.
Alvöru súkkulaðibitakökur
Þessar kökur standa vel undir nafni, þetta er alvöru súkkulaðbitakökur. Þær eru dökkar með fullt af súkkulaði og fullkomnar fyrir súkkulaðigrísi.
Kökurnar runnu ljúflega niður í fjölskyldumeðlimi og kláruðust fljótt – og verða því auðvitað bakaðar aftur. Þessi nýja uppskrift stóð því algjörlega undir væntingum.
Bakið ekki of lengi
Gætið þess að baka kökurnar ekki of lengi og fylgist vel með þeim í ofninum. Þær eru frekar mjúkar þegar þær koma úr ofninum og gætu litið út fyrir að vera ekki nógu bakaðar, en þær harðna þegar þær kólna.
Ekki geyma þessar kökur of lengi – þetta eru kökur sem á að borða fljótt. Ég myndi segja að 3 til 5 dagar væru hámark. En ég þurfti ekki að hafa neinar áhyggjur af því þar sem þær kláruðust það fljótt. Uppskriftin gefur um 36 kökur.
Þessi uppskrift er frá henni Mörthu Stewart vinkonu minni, en ég gerði þó örlitlar breytingar á henni.
Það sem þarf
1 bolli hveiti
½ tsk matarsódi
300 gr gott súkkulaði (mjólkursúkkulaði eða millisætt)
1 ½ bolli sykur
1 tsk vanilludropar
½ bolli dökkt kakóduft (notið úrvals kakó)
½ tsk salt
8 msk ósaltað smjör
2 stór egg
Aðferð
Byrjið á að taka helminginn af súkkulaðinu og saxið gróft. Brjótið hinn helminginn niður í bita. Haldið þessu aðskildu.
Hitið ofninn að 165 gráðum og klæðið ofnplötur með bökunarpappír.
Blandið hveiti, kakó, matarsóda og salti og saman í skál. Setjið til hliðar og geymið.
Takið súkkulaðið sem var brotið í bita, ásamt smjörinu, og bræðið yfir vatnsbaði.
Þegar súkkulaðið og smjörið er bráðið hellið þá blöndunni í hrærivélaskál.
Bætið eggjum, sykri og vanilludropum út í skálina og hrærið rólega saman.
Látið þá hveitiblöndunni út í skálina, gott að gera það í nokkrum skömmtum, og hrærið varlega saman.
Setjið að lokum niðurskorna súkkulaðið út í og notið sleif til að hræra því varlega saman við blönduna.
Notið síðan skeiðar til að búa til kúlur og raðið þeim á bökunarplöturnar. Gætið þess að hafa nóg pláss á milli svo kökurnar renni ekki saman. Hafið kökurnar í stærra lagi.
Bakið í ofni í 13 til 15 mínútur eða þar til kökurnar eru flatar og farnar að springa. Fylgist vel með þeim í ofninum svo þær bakist ekki of mikið.
Takið kökurnar út úr ofninum og færið varlega yfir á grind og látið þær kólna.
Njótið!
Jóna Péturs – kokteillinn@gmail.com