Hér er uppskrift að frábærum hversdagsmat sem ætti að falla í kramið hjá öllum aldurshópum.
Þetta er eitthvað sem vert er að gera aftur og aftur.
Það er hún Svava á Ljúfmeti og lekkerheit sem deilir hér með okkur uppskrift að kartöflugratíni með nautahakki.
Það sem þarf
- 500 g nautahakk
- 1 msk smjör
- 1 laukur
- 1 hvítlauksrif
- 1 msk tómatpuré
- 1 dós hakkaðir tómatar (400 g)
- 1 msk kálfakraftur
- salt og pipar
- oregano, þurrkað
- 10 kartöflur
- 2 dl rjómi
- 2 dl rifinn ostur
Aðferð
Steikið nautahakkið í smjöri.
Afhýðið og hakkið laukinn og steikið hann með nautahakkinu í nokkrar mínútur.
Blandið hvítlauki saman við hakkið og hrærið síðan tómatpuré saman við.
Bætið hökkuðum tómötum og kálfakrafti á pönnuna og látið sjóða við vægan hita í 15 mínútur. Smakkið til með salti, pipar og oregano.
Skrælið kartöflurnar og skerið í strimla eða skífur.
Setjið helminginn af kartöflunum í smurt eldfast mót. Setjið nautahakkið yfir og leggið seinni helminginn af kartöflunum þar yfir. Hellið rjóma yfir og kryddið með salti og pipar.
Setjið álpappír yfir og setjið í 200° heitan ofn í 25 mínútur.
Takið þá álpappírinn af, stráið rifnum osti yfir og setjið aftur í ofninn í 20 mínútur.
Takið út og njótið!