Samkvæmt nýjum rannsóknum er víst vel hægt að leyfa sér að drekka bjór og léttvín… og borða súkkulaði – og samt lifa lengi!
Andoxunarefnin í þessum veigum hjálpa nefnilega mikið til við að draga úr bólgum í líkamanum, en slíkar bólgur leiða til banvænna sjúkdóma eins og hjartveiki og krabbameins.
Ávextir og grænmeti
Sé ávaxta og grænmetis neytt í ríku magni geta þeir sem njóta þess að fá sér vín, bjór og súkkulaði verið alveg rólegir. Rannsóknir sýna nefnilega fram á að þessir einstaklingar eru allt að fimm sinnum ólíklegri til að deyja um aldur fram en þeir sem neyta rauðs kjöts, unnra matvara og gosdrykkja í miklu magni.
Prófessor Kaluza í háskólanum í Varsjá bendir á að það sé vitað mál að ávextir, grænmeti, kaffi, te, rauðvín, bjór og súkkulaði séu stútfull af andoxunarefnum.
Bólgueyðandi fæða
Í rannsókninni sem birt var í Journal of Internal Medicine tóku 68.273 einstaklingar á aldrinum 45 til 83 ára þátt. Farið var vel yfir mataræði þessara einstaklinga og niðurstaðan var sú að þeir sem neyttu fæðu sem dregur úr bólgum í stað þess að valda bólgum lifðu lengur. Má t.d. nefna ólífuolíu og hnetur sem draga úr bólgum og síðan bólguvaldandi fæðutegundir eins og flögur og kex.
Niðurstöðurnar sýna fram á að þeir sem neyttu hvað mest af bólgueyðandi fæðu voru að meðaltali 18 prósent ólíklegri til að látast um aldur fram en þeir sem neyttu minnst af slíkri fæðu. Til að fara enn nánar í þetta þá minnkar bólgueyðandi fæða líkurnar á því að deyja úr hjartasjúkdómi um 20 prósent og krabbameini um 13 prósent.
Prófessor Kaluza tekur þó fram að þeir þáttakendur sem nutu góðs af því að drekka vín og bjór voru fyrst og fremst einstaklingar sem neyttu áfengis í hófi.