Það tekur ekki nema um 15 mínútur að útbúa þessa dásamlegu súkkulaðisprengju.
Þessi súkkulaðibaka er algjör snilld sem eftirréttur fyrir matarboðið því þú getur auðveldlega útbúið hana deginum áður.
Þetta er eitthvað fyrir súkkulaði unnendur.
Verði ykkur að góðu!
Það sem þarf
Botn
32 stk (330 gr) Oreo kexkökur
½ bolli smjör, bráðið
Fylling
200 gr mjólkursúkkulaði
100 gr dökkt súkkulaði (55-70% kakó)
200 ml rjómi
Ofan á
300 gr jarðarber
Jarðhnetur, pistasíur eða möndlur til skreyta og bragðbæta ef vill.
Aðferð
Takið til langt bökuform, 12 x 36 cm.
Setjið Oreo kexið í matvinnsluvél og maukið vel.
Hellið bráðnu smjörinu yfir kexið og blandið svo vel saman.
Setjið kexblönduna í formið og þrýstið henni vel ofan í, notið bakhlið á skeið og fingurna til þess.
Setjið í frysti á meðan fyllingin er undirbúin, þ.e. í nokkrar mínútur.
Brjótið súkkulaðið og setjið í skál.
Setjið rjóma í pott og hitið við lágan hita í nokkrar mínútur þar til hann er orðinn heitur – ekki láta sjóða eða malla.
Takið pottinn af hellunni og hellið rjómanum yfir súkkulaðið – látið liggja í 1 til 2 mínútur. Hrærið síðan í með sleif þar til súkkulaðið hefur alveg bráðnað saman við rjómann.
Takið þá formið út úr frystinum og hellið súkkulaðiblöndunni yfir botninn.
Raðið jarðarberjum yfir kremið og dreifið hnetum yfir ef vill.
Setjið inn í ísskáp og kælið í að minnsta kosti 2 tíma, eða yfir nótt.
Skerið í fallegar sneiðar og njótið.
Sjáðu hér í myndbandinu hvað þetta er einfalt