Bólgur í líkamanum geta orðið krónískar og leitt til ýmissa sjúkdóma og vandamála – allt frá sjálfsofnæmis sjúkdómum til krabbameins.
Þá geta bólgur í frumum líkamans valdið margskonar hrörnunarsjúkdómum og oft má rekja þetta til lélegs mataræðis og streitu.
Hér eru sjö fæðutegundir sem vert er að bæta inn í fæðuna því allar geta þær unnið gegn bólgum í líkamanum.
Paprikur
Þær innhalda mikið af andoxunarefnum en lítið af sterkju, sérstaklega þessar rauðu. Í sætum paprikum má finna capsaicin, sem er einnig í sterkum pipar eins og chili – en þetta efni er þekkt fyrir að hjálpa til við að draga úr bólgum og jafnvel verkjum.
Ef þér finnst ekki gott að borða paprikurnar tómar er mjög gott að fá sér hummus með þeim.
Spínat
Þetta fagurgræna grænmeti telst til svokallaðrar ofurfæðu og er vel að titlinum komið. Spínat er ríkt af E-vítamíni en það getur veitt góða vörn gegn bólgum í líkamanum
Granatepli
Þau eru góð uppspretta andoxunarefna sem geta bæði lækkað kólesteról og blóðþrýsting. Og það sem er enn betra er að sérfræðingar telja að efnasamband í granateplum geti haft áhrif á bólgur í heila – sem gæti hjálpað til við að hægja á framgangi hnignunar á starfsemi heilans.
Perur
Þær innihalda mikið af trefjum og því eru þær góðar til að vinna á bólgum í líkamanum.
Makríll
Fitan í makríl hjálpar til við að sporna gegn sjúkdómum sem einkennast af miklum bólgum, eins og hjartasjúkdómum og Alzheimers. Þá er makríll góð uppspretta B12- og D-vitamína – en erfitt getur verið að finna fæðutegundir sem innihalda D-vítamín. En eins og við vitum þá er D-vítamín líkamanum ákaflega mikilvægt, svo sem eins og fyrir sterk bein, fyrir virkni ónæmiskerfisins og til að hjálpa líkamanum að vinna kalsíum.
Svart te
Þrátt fyrir að stöðugt sé talað um eiginleika græna tesins þá hefur svart te ýmsa góða kosti í för með sér enda kemur það frá sömu plöntu og það græna. Að drekka svart te getur hjálpað til við að halda slagæðunum opnum og það inniheldur andoxunarefni sem eru þekkt fyrir að vernda frumur líkamans fyrir skemmdum.
Bókhveiti
Bókhveiti er ekkert skylt hveiti, en það er notað í soba núðlur og bókhveitikorn má nota í súpur og grauta. Þá má gera þunnar og stökkar kökur, pönnukökur og blinis úr mjöli bókhveitifræja.
Bókhveiti getur dregið úr bólgum í líkamanum.
Heimildir – Health.com