Þetta eru einar bestu brúnkur sem þú færð – enda stútfullar af dökku súkkulaði – svo ekki sé nú talað um söltu karamellusósuna. Þvílík dásemd.
Þær eru fullkomnar í eftirréttinn eða með kaffinu á sunnudaginn.
Langbestu brúnkurnar
Það er hún Svava á Ljúfmeti og lekkerheit sem deilir hér með okkur uppskriftinni að þessari dásemd. En Svava segir þetta klárlea bestu brúnkur sem hún hafi á ævinni smakkað.
Það má gera kökuna deginum áður. Setjið þá plast yfir hana og geymið við stofuhita. Og karamellusósuna má þess vegna gera með viku fyrirvara. Setjið hana í lokaðar umbúðir og kælið. Hitið hana upp áður en hún er borin fram.
Það sem þarf
- 1 msk kakó
- ½ bolli (115 g) ósaltað smjör
- 85 g ósætt súkkulaði (með sem hæsta kakóinnihaldi, helst yfir 80%), hakkað
- 55 g suðusúkkulaði, hakkað
- 2/3 bolli hveiti
- 1 msk instant espresso kaffiduft
- 1/4 tsk gróft salt
- 2 stór egg
- 1 bolli sykur
- 1 tsk vanilludropar
- 1/3 bolli grófhakkað suðusúkkulaði
Aðferð
Hitið ofninn í 175°. Smyrjið kökuform sem er 20×20 cm og stráið kakó yfir það. Hellið því kakói frá sem ekki festist.
Bræðið smjör, ósætt súkkulaði og suðusúkkulaði saman í örbylgjuofni eða yfir vatnsbaði og hrærið blöndunni saman í slétt krem. Leggið til hliðar.
Hrærið hveiti, espressó dufti, grófu salti og 1 msk kakó saman í skál. Leggið til hliðar.
Hrærið egg og sykur saman í hrærivél (eða með handþeytara) á hröðustu stillingu þar til blandan verður ljós og þykk, um 2 mínútur.
Hrærið vanilludropunum saman við.
Hrærið súkkulaðiblöndunni varlega saman við og þar á eftir þurrefnunum. Passið að ofhræra ekki deigið heldur einungis hræra það saman þar til blandan er kekkjalaus.
Hrærið 1/3 bolla af grófhökkuðu suðusúkkulaði saman við og setjið deigið í kökuformið.
Bakið þar til að prjónn sem stungið er í deigið kemur upp með mjúkri mylsnu, eða í 20-25 mínútur. Takið kökuna úr ofninum og látið kólna í forminu.
Sölt karamellusósa
- 1/2 bolli sykur
- 2 msk vatn
- 2 msk ósaltað smjör, skorið í litla bita
- 2 msk rjómi
- sjávarsalt
Setjið sykur og vatn í lítinn pott og hitið á miðlungsháum hita þar til byrjar að sjóða. Hrærið í pottinum þar til sykurinn leysist upp.
Þegar byrjar að sjóða í pottinum þá er hitinn hækkaður örlítið og hætt að hræra í pottinum. Veltið pottinum annað slagið og burstið niður með hliðunum með blautum pensli.
Látið sjóða þar til sykurinn er orðinn fallega gylltur á litinn, það tekur 5-8 mínútur.
Takið pottinn af hitanum og hrærið smjöri og rjóma saman við (blandan mun bullsjóða við þetta). Hrærið í pottinum þar til blandan er slétt. Látið karamellusósuna kólna aðeins í pottinum.
Skerið brownies-kökuna í bita, hellið volgri karamellusósunni yfir og stráið sjávarsalti yfir karamellusósuna.
Njótið!
Uppskrift frá Bon Appétit