Margir þekkja eflaust hversu erfitt það getur verið að missa heimilishundinn og hversu yfirmáta sárt það er.
Þeir sem ekki hafa átt hund eiga hins vegar oft í erfiðleikum með að skilja sorgina þar sem í þeirra huga hafi þetta nú bara verið hundur sem var að deyja.
Hluti af fjölskyldunni
En þeir sem hafa átt og elskað hund vita að hundur er ekki bara hundur – hundurinn er oftast hluti af fjölskyldunni og tekur þátt í fjölskyldulífinu. Það getur því verið virkilega erfitt þegar svona góður vinur kveður. Samband hunds og eiganda getur verið afar sterkt.
Þrátt fyrir að mörgum finnist það skrýtið og jafnvel asnalegt að fólk syrgi hundinn sinn þá sýna rannsóknir fram á að flestir hundaeigendur eiga jafn erfitt með að höndla það eins og ef nákominn ættingi hefði látist. Þannig að þetta er ósköp eðlilegt og eitthvað sem enginn ætti að fara með í felur. Þótt það séu engar ákveðnar hefðir sem við getum leitað í þegar hundur deyr þá er ekki þar með sagt að við höfum ekki leyfi til að vera döpur og syrgja þennan fjölskyldumeðlim eins mikið og við þurfum.
Að missa kæran vin
Samband hunds og eiganda getur verið virkilega sterkt. Því er missirinn mikill þegar hundurinn deyr og upplifun eigandans sú að hann sé ekki bara að missa gæludýr sitt heldur kæran vin. Hundurinn elskar skilyrðislaust, hann er alltaf glaður að sjá eigandann og hann er tryggur félagi. Hvarf hundsins hefur áhrif á daglegar venjur eigandans enda hafa þeir sinnt þörfum hvors annars. Mörgum hundaeigendum finnst þeir sjá hundinum bregða fyrir og heyra tipl hans þótt hann sé dáinn – þetta á sérstaklega við um þá sem hafa tengst hundi sínum einstaklega sterkum böndum.