Sælkera Kokteils finnst einstaklega ljúft að komast í hádegisverð á góðum veitingastað. Í hádeginu bjóða nefnilega flestir góðir veitingastaðir upp á sérstakan hádegisseðil. Þá er oft hægt að fá sömu rétti, eða svipaða, og staðirnir bjóða upp á á kvöldin á mun lægra verði. Stundum eru réttirnir reyndar aðeins minni en það er alls ekki algilt. Að fara í hádegisverð er því tilvalin leið til að prófa veitingastaði.
Hreifst af Kopar við gömlu höfnina
Sælkerinn hreifst af veitingastaðnum Kopar, sem er við gömlu höfnina í Reykjavík, þegar hann fór þangað fyrst. Og á föstudegi núna í apríl skellti Sælkerinn sér í hádegisverð með góðum vini. Staðurinn var þétt setinn en við fengum þó borð við gluggann með útsýni yfir höfnina. Eftir smá valkvíða yfir matseðlinum var ákveðið að panta fisk dagsins, þar sem lýsing þjónsins hljómaði svo vel.
Rétturinn gladdi svo sannarlega augað
Um var að ræða fiskitvennu með steinbít og karfa. Þegar diskurinn kom á borðið gladdi hann svo sannarlega augað þar sem framsetningin var afar falleg. En í augum Sælkerans skiptir framsetning afar miklu máli og fallegir réttir renna ljúflega niður.
Með fiskinum var borin fram parmesan-maískaka, steinseljurótarkrem, stökkar sætar kartöflur, rauðrófur og hvítvínssósa.
Fiskurinn var bragðgóður, kartöflurnar sem voru skornar niður í þunnar lengjur voru stökkar og einstaklega góðar. Maískakan, steinseljurótarkremið og rauðrófurnar voru svo punkturinn yfir i-ið. Þetta var algjörlega fullkomin fiskmáltíð. Þá var þjónustan góð og lífleg.
En sérstakt gleðiefni við þessa heimsókn var samt þegar komið var á kassann til að borga fyrir þessa dýrindis máltíð. Kom þá í ljós að í apríl er tveir fyrir einn tilboð hjá símafyrirtæki Sælkerans á Kopar, sem þýddi að hvor um sig borgaði aðeins 1.045 krónur fyrir réttinn. Voru Sælkerinn og vinur hans sammála um að þetta hefði verið ein besta og hagkvæmasta fiskmáltíð sem þeir hefðu nokkru sinni fengið á veitingastað á Íslandi.