Ég bara verð að deila með ykkur þessari æðislegu uppskrift sem er í uppáhaldi hjá mér.
Sætar kartöflur eru eitt það besta sem ég fæ og ég einfaldlega fæ ekki leið á þeim. Þess vegna finnst mér ómissandi að eiga nokkrar… eða margar uppskriftir að góðum sætkartöfluréttum.
Einfalt og „spicy“
Ef þig langar í eitthvað vel kryddað og gott, sem sagt eitthvað „spicy“ – þá er þetta málið. Maður minn hvað þessar kartöflur eru svakalega góðar. Þess utan þá er þetta frekar einfalt í framkvæmd sem í mínum huga er alltaf mikill plús.
Það sem þarf
3 stórar sætar kartöflur
3 msk ólífuolía
1 msk dökkur púðursykur
¾ tsk salt
½ tsk chili krydd
½ tsk paprika
½ tsk hvítlauksduft
½ tsk cayenne pipar
¼ tsk svartur pipar
Aðferð
Hitið ofninn að 220 gráðum.
Þrífið sætu kartöflurnar vel og skerið endana af.
Skerið þær síðan í litla bita án þess að skræla þær.
Látið kartöflurnar í vel stóra skál eða gott eldfast mót og dreifið ólífuolíunni yfir.
Blandið öllu kryddinu saman í lítílli skál og dreifið síðan blöndunni yfir kartöflurnar og þekjið þær allar með kryddinu.
Setjið kartöflurnar síðan í ofnskúffu (klæðið með bökunarpappír ef vill). Ekki láta þær liggja hver ofan á annarri – dreifið vel úr þeim á plötunni.
Setjið inn í heitan ofninn og bakið í 15 mínútur.
Rúllið þá skúffunni aðeins út og snúið og veltið kartöflunum.
Bakið í aðrar 15 til 20 mínútur.
Skellið þeim síðan að lokum undir grillið í ofninum í örfáar mínútur til að gera þær aðeins stökkari.
Jóna Péturs – kokteillinn@gmail.com