Þetta er æðislegur helgarréttur… en passar auðvitað líka fullkomlega í miðri viku.
Mér finnst matur frá Miðjarðarhafinu einn sá allra besti og þessi réttur fellur algjörlega inn í þann ramma. Hann er léttur, ljúffengur og fallegur að bera fram.
Það má vel sleppa hvítlauknum en fyrir þá sem vilja meira bragð þá mæli ég með að hafa hann með. Auk þess er gott að strá örlitlum rauðum pipar yfir að lokum ef þið viljið enn meira bragð.
Það sem þarf
500 gr spagettí
400 – 500 gr risarækja eða tígrisrækja
beikon, lítill pakki svona um 130 gr
1 bolli ólífur, svartar, grænar eða blandaðar
1 askja kirsuberjatómatar, skornir til helminga
3 – 5 hvítlauksrif
3 msk tómatpúrra
2 msk ferskt rósmarín
2 msk jómfrúar ólífuolía, og meira til að dreifa yfir
sjávarsalt og nýmulinn pipar
parmesan ostur til að strá yfir
rauður pipar (Crushed Red Pepper) ef vill
Aðferð
Setjið pastað í pott og saltið. Sjóðið samkvæmt leiðbeiningum á pakka. Þegar pastað er soðið takið þá frá 1½ bolla af vatninu áður en þið hellið því af.
Hitið pönnu og klippið/skerið beikonið í bita og steikið.
Maukið hvítlaukinn og steikið hann örlitla stund með beikoninu.
Bætið tómatpúrru, rósmarín, ólífum og einni matskeið af ólífuolíu út á pönnuna og mallið í 1 mínútu.
Setjið þá tómatana út í og saltið og piprið. Látið tómata steikjast þar til þeir eru farnir að springa og safinn lekur út, svona í 5 mínútur.
Þá er 1 bolla af vatninu/soðinu bætt út í pönnuna og að lokum rækjunum.
Leyfið þessu síðan að malla í 2 til 3 mínútur eða þar til rækjurnar eru tilbúnar.
Látið síðan pastað út á pönnuna og bætið 1 matskeið af ólífuolíu út í. Ef það vantar meiri vökva bætið þá soði/vatni út í, einni matskeið í einu þar til pastað er alveg þakið sósu.
Færið á fat eða berið fram í pönnunni. Dreifið örlítilli ólífuolíu yfir að lokum.
Stráið parmesan osti yfir réttinn ef vill, og örlitlum rauðum pipar.
Gott að bera fram með nýbökuðu baguette.
Njótið!
Jóna Pétursdóttir
kokteillinn@gmail.com