Þessar hafrakökur eru alveg frábærar – og einstaklega hentugt að geta geymt deigið inni í frysti og skellt svo inn í ofn þegar löngunin í eitthvað gott gerir vart við sig. Nýbakaðar kökur í hvert sinn!
Nokkrar í einu
Ef þú vilt ekki baka allar í einu þá er stórsniðugt að geyma deigrúllurnar inni í frysti og skera svo sneiðar af þeim þegar þig langar í nýbakaðar ljúffengar kökur.
Hún Svava á Ljúfmeti og lekkerheit deilir hér með okkur þessari uppskrift.
Það sem þarf
- 1 ¼ bolli hveiti
- 3/4 bolli heilhveiti
- ½ tsk lyftiduft
- ½ tsk matarsódi
- ½ tsk gróft salt
- 1/8 tsk múskat
- 1 bolli ósaltað smjör
- 1 bolli ljós púðursykur
- ½ bolli sykur
- 2 stór egg
- 1 tsk vanilludropar
- 2 bollar haframjöl
- 2 bollar rúsínur
Aðferð
Hrærið hveiti, heilhveiti, lyftiduft, matarsóda, salt og múskat saman í skál og leggið til hliðar.
Hrærið smjör, ljósan púðursykur og sykur saman í hrærivél á hröðum hraða þar til blandan er létt og kremkennd, svona 2-3 mínútur. Bætið eggjum saman við, einu í einu, og skafið niður með hliðunum á skálinni á milli.
Hrærið vanilludropum saman við.
Lækkið hraðann á hrærivélinni í hægan hraða og bætið þurrefnunum saman við í smáum skömmtum. Hrærið þar til hráefnin eru unnin saman en ofhrærið ekki deigið.
Hrærið þá haframjöli og rúsínum varlega saman við.
Skiptið deiginu í tvennt og setjið á bökunarpappír. Mótið deigið í tvær ílangar rúllur sem eru ca 4 cm í þvermál. Rúllið bökunarpappírnum utan um deigrúllurnar og pakkið þeim svo inn í plast. Frystið deigið í a.m.k. 4 tíma, eða þar til á að nota það.
Þegar á að baka kökurnar er ofninn hitaður í 175°.
Takið deigið úr plastinu og rúllið bökunarpappírnum frá. Skerið deigið í ca 1 cm þykkar sneiðar og raðið á bökunarpappírsklædda ofnplötu.
Ef ekki á að baka úr öllu deiginu þá er restinni pakkað aftur inn og sett í frysti.
Bakið kökurnar þar til kantarnir eru gylltir að lit, svona í 15-18 mínútur.
Njótið!