Þessar ljúffengu fylltu tortillakökur eru frábærar í morgunmat um helgar og auðvitað alveg tilvaldar í brönsinn.
Það er gaman að nota helgarnar og breyta út frá hefðbundnum morgunmat og gera eitthvað öðruvísi.
Einfalt og gott
Ég gerði þessar morgunverðar tortillakökur einn laugardaginn í janúar og þær vöktu mikla ánægju. Það er virkilega einfalt að útbúa þær og það má vel leika sér aðeins með fyllinguna í þær.
Vöfflujárn er til á flestum heimilum og er oftast notað eingöngu til að baka vöfflur – en það má nota vöfflujárnið í svo margt fleira.
Það sem þarf
Nokkrar stórar tortillakökur
Nokkrar litlar tortillakökur (eða millistærð)
Nokkur egg
Smjör
Salt
Beikon
Niðurrifinn ost
Aðferð
Byrjið á því að taka vöfflujárnið fram og þurrka/þrífa aðeins innan úr því.
Setjið beikonið inn í ofn eða steikið á pönnu.
Takið eggin og búið til góða eggjahræru. HÉR er hugmynd að góðum hrærðum eggjum.
Rífið niður góða osta eða notið tilbúinn rifinn ost – ég notaði Ísbúa og Mozzarella.
Leggið stóru tortillakökurnar á borð og setjið eggjahræru á miðjuna á kökunum.
Takið steikta beikonið og skerið/klippið í bita og setjið ofan á eggin. Hversu mikið beikon er notað fer algjörlega eftir smekk. Mér finnst betra að hafa aðeins meira en minna til að gefa meira bragð.
Dreifið síðan vel af rifnum osti yfir eggin og beikonið.
Takið þá litlu tortillakökurnar og leggið ofan á þær stóru. Ég átti ekki litlar kökur heldur aðeins miðstærð, svo ég klippti af þeim og minnkaði þær aðeins. Brjótið stóru kökuna upp að litlu kökunni og gætið þess að það sé lokað allan hringinn.
Færið kökurnar síðan varlega í vöfflujárnið (betra að reyna að setja þær á hvolf) og lokið járninu. Það gæti þurft að ýta aðeins á járnið á meðan þær bakast. Bakið þar til þær hafa fengið á sig gylltan lit.
Takið kökurnar og skerið til helminga eða njótið þeirra í heilu lagi!
jona@kokteill.is