Lykillinn að lengra lífi er líklega ekki sá sem flestir halda – en það að borða hollt, hreyfa sig nægilega og að vera reyklaus hafa verið taldir mikilvægir þættir í átt að langlífi.
Samkvæmt rannsóknum er þetta hins vegar ekki nóg því það er einn veigamikill þáttur sem virðist vera mikilvægastur í því að ná háum aldri.
Að eiga vini
Það merkilegasta er að sá þáttur kemur líkamlegri heilsu í raun ekkert við. Nei, því það sem á stærstan þátt í því að lengja líf okkar er það að eiga vini.
Niðurstöður rannsókna sýna nefnilega fram á að fólk með sterk félagsleg tengsl dregur úr líkum á því að látast fyrir aldur fram um heil 50 prósent. Vísindamenn segja þessar niðurstöður undirstrika mikilvægi vináttunnar fyrir heilsuna – og benda á að taka beri félagsleg tengsl alvarlega þegar kemur að því að draga úr líkum á ótímabæru andláti.
Í rannsókninni var farið yfir gögn 308.000 einstaklinga sem fylgst var með í sjö og hálft ár. Skoðuð voru tengsl á milli félagslegra tengsla þessara einstaklinga og dánartíðni. Félagslegu tengslin voru mæld út frá ýmsum hliðum, t.d. stærð tengslanets viðkomandi, hvort fólk var gift eða bjó eitt, hvort því fannst aðrir vera til staðar fyrir sig og hversu mikinn þátt fólk tók í sínu eigin samfélagi og tengslaneti.
Niðurstöðurnar sýndu skýrt fram á að tengja má sterk félagsleg tengsl við auknar líkur á því að lifa af, þ.e. að draga úr líkum á andláti. Skipti þá ekki máli á hvaða aldri fólk var, né kyn þess eða almennt heilsufar.
Af hverju eru vinir svona mikilvægir?
Sérfræðingarnir segja sambönd okkar geta haft margvísleg áhrif á heilsuna, t.d. geti þau hjálpað okkur að fást við streitu. Það að vita að maður getur treyst á einhvern/einhverja og að geta leitað til viðkomandi dregur t.d. úr streitu og hjálpar okkur að höndla erfiðar aðstæður. Þá geta vinasambönd einnig haft áhrif á lífsstíl okkar – til dæmis geta góðir vinir hvatt okkur til að borða hollara, hreyfa okkur meira, gæta að svefninum og fara í læknisskoðun. Allt hefur þetta áhrif á vellíðan okkar.
En samkvæmt niðurstöðum rannsóknarinnar skipta þessi litlu samskipti sem þú átt yfir daginn einnig máli. Það hvort þú talar við fólkið í búðinni, í hreinsuninni eða jafnvel létt spjall við nágranna þína telur líka.
Félagsleg tengsl gefa lífinu gildi og geta haft áhrif á það hvernig við hugsum um okkur eða leitt til þess að við tökum minni áhættu.
Svo farðu út og hittu vini þína og láttu það ganga fyrir frekar en t.d. að einblína á ræktina því samkvæmt rannsókninni var hreyfingin töluvert neðar á listanum en vináttan og félagsleg tengsl. Og gleymum ekki að maður er manns gaman.