Hún er tólf ára gömul og er frá Cork á Írlandi – og er sögð vera hin nýja Adele.
Fyrir rúmum þremur árum síðan byrjaði Allie Sherlock að læra á gítar með pabba sínum. Fljótlega vildi hún fara að syngja með en pabbi hennar hélt henni við gítarnámið til að byrja með. Það dugði þó ekki lengi því söngurinn togaði í hina ungu Allie og fyrr en varði var hún farin að syngja lög með Ed Sheeran, Adele og fleirum.
Vildi fara út á götu og syngja
Allie fannst þó ekki nóg að syngja aðeins heima hjá sér og suðaði í pabba sínum að koma með sér í bæinn svo hún gæti sungið úti á götu. En götulist er vel þekkt fyrirbæri á Írlandi og margir sem vinna fyrir sér á þann hátt og hafa öðlast frægð og frama í kjölfarið.
Fólk heillaðist strax af hinni ungu stúlku og myndbönd fóru að birtast af henni á netinu. Eitt myndbandið náði til Ellen DeGeneres sem vildi ólm fá hana í þáttinn til sín – þetta var sumarið 2016. En Allie hafnaði boðinu, sem kom flestum á óvart enda slegist um að fá að koma fram í The Ellen Show.
En Ellen gafst ekki upp og nú í lok janúar lét Allie tilleiðast og mætti í þáttinn þar sem hún söng og spjallaði við Ellen.
Stúlkan er greinilega mjög hæfileikarík og verður gaman að fylgjast með henni. Virkilega flott rödd.