Umhirða hársins getur verið vandmeðfarin og sumt, og jafnvel margt, sem við gerum getur einfaldlega valdið hárinu skaða.
Það eru gjarnan litlir og einfaldir hlutir sem maður áttar sig ekki á að gera hárinu meira ógagn en gagn.
Hér eru frábær ráð við umhirðu hársins
Blautt hár og hárburstinn
Það er ekki gott fyrir hárið að nota venjulegan bursta á blautt hárið eftir hárþvott. Eins og allir vita þá er erfiðara að greiða blautt hár en þurrt hár – en það sem ekki allir vita er að þegar hárið er blautt er það teygjanlegra sem gerir það að verkum að það verður viðkvæmara fyrir skemmdum.
Fáðu þér góðan bursta sem er ætlaður fyrir blautt hár og/eða flækjur. Og það er mikilvægt að vera mjúkhentur við blautt hárið svo greiddu varlega í gegnum það og sýndu þolinmæði.
Að sofa á bómullarveri
Það eru engar ýkjur þegar sagt er að það besta fyrir hárið sé að sofa á kodda með satín koddaveri. Að sofa á bómullarveri ýfir hárið, veldur slitnum endum og sýgur allan raka úr hárinu. Þótt bómullarkoddarnir séu mjúkir og notalegir þá fara satín- og silkiver betur með hárið.
Heit tæki og tól
Farðu varlega með öll heit tæki og tól. Við ákveðinn hita getur hárið hreinlega brunnið. Það er líka mýta að þú þurfir að nota hæsta hita á blásaranum til að fá góðan blástur. Hárið verður alveg jafn vel blásið þótt þú notir kaldari stillingu.
Að klippa hárið of fljótt… eða of sjaldan
Til að halda hárinu heilbrigðu og fallegu er mikilvægt að láta klippa það reglulega. Það er þó misjafnt eftir hárgerðum hversu oft þarf að klippa en oftast er miðað við á um fjögurra til sex vikna fresti. En fyrir heilbrigði hársins er samt lang mikilvægast hvernig þú meðhöndlar það á milli þess sem þú ferð í klippingu.
Of heitt vatn
Alveg eins og með heit tæki og tól þá er of heitt vatn ekki heldur gott fyrir hárið. Of heitt vatn getur þurrkað hárþræðina og gert hárið brothættara og viðkvæmara. Reyndu því að hafa vatnið ekki of heitt.
Að taka hárið of mikið upp
Þótt það sé afskaplega þægilegt að henda hárinu í hátt tagl eða háan snúð þá getur það farið illa með hárið. Þegar hárið er togað of oft svona hátt upp og fest með teygjum getur það valdið skemmdum á rótum hársins. Ef þú vilt losna við hárið úr andlitinu notaðu þá spennur og klemmur í stað þess að toga það stöðugt upp.
Að þurrka með handklæði
Alveg eins og með bómullar koddaverin þá geta bómullar handklæði líka farið illa með hárið. Mundu að hárið er mjög viðkvæmt þegar það er blautt, svo hart og stíft bómullar handklæði gerir hárinu nákvæmlega ekkert gagn. Prófaðu að nota bol af þér til að þurrka hárið eða mjög mjúkt handklæði.
Of mikið þurrsjampó
Þurrsjampó er snilldar uppfinning en eins og í öllu öðru þarf að gæta hófs þar líka.
Ef þurrsjampó er notað of mikið og oft getur það valdið vandamálum í hársverðinum og leitt til hárloss. Leifar af þurrsjampóinu verða eftir í hársverðinum og geta stíflað hársekkina. Þá dregur sjampóið í sig alla olíu bæði úr rót hársins og hárinu sjálfu – svo ef þú ert með þurrt hár þarftu að fara varlega þegar þú notar þurrsjampó. Ef hárið er mjög þurrt leitastu þá við að nota sjampóið aðeins í rótina. Og ef þú ert með mikla flösu er best að sleppa þurrsjampóinu alveg.