Það er algjörlega ómissandi að fá góðan eftirrétt um jólin. Hvort sem maður borðar hann strax eftir mat eða gæðir sér á honum seinna um kvöldið þá er gott að fá eitthvað ljúffengt og sætt.
Hér er dásamleg uppskrift að jóla Tiramisu úr smiðju snillingsins Jamie Oliver en Jamie segir konu sína kjósa þessa útgáfu yfir þá venjulegu.
Þessi verður svo sannarlega prófuð um jólin!
Það sem þarf
200 ml rjóma
100 gr dökkt súkkulaði, t.d. 70% Nóa Siríus Suðusúkkulaði, plús aukalega til strá yfir
100 gr kökufingur (lady fingers/sponge fingers)
150 ml heitt, sterkt og sætt kaffi
50 ml sætt serrí eða ítalskt Vin Santo
500 gr ricotta ostur
250 gr mascarpone ostur
1 tsk vanilla (úr vanillustöng)
3 msk gott hunang
1 appelsína eða klementína
Aðferð
Hellið rjómanum á pönnu og hitið varlega við meðalhita að suðu.
Saltið með örlitlu af sjávarsalti og brjótið síðan súkkulaðið út í rjómann.
Bræðið súkkulaðið þar til blandan er orðin mjúk og þykk. Takið þá af hitanum og setjið til hliðar.
Takið form (20 x 30 cm) og raðið fingurkökunum í það.
Hellið heitu kaffinu varlega yfir kökurnar og dreifið síðan sérríinu yfir.
Dreifið þá súkkulaðiblöndunni yfir allt saman og gætið þess að þekja allt svæðið jafnt.
Setjið ostana, vanilluna og hunangið í matvinnsluvél og blandið saman þar til blandan er orðin mjög mjúk.
Smyrjið síðan ostablöndunni jafnt yfir súkkulaðiblönduna.
Látið inn í ísskáp í að minnsta kosti 2 tíma. En það má líka vel gera þennan eftirrétt deginum áður.
Þegar rétturinn er borinn fram rífið þá vel af súkkulaði og appelsínu-/klementínuberki yfir.
Njótið!
jona@kokteill.is