Þessi girnilega og ljúffenga After Eight kaka er tilvalin sem eftirréttur yfir hátíðarnar. En margir tengja einmitt After Eight við jólin.
Kakan er mjúk, örlítið blaut og dásamleg með létt þeyttum rjóma.
Það er hún Svava á Ljúfmeti og lekkerheit sem deilir hér með okkur þessari uppskrift.
Það sem þarf
- 250 g suðusúkkulaði
- 175 g smjör
- 2 tsk nescafé (instant kaffiduft)
- 2 dl sykur
- 4 egg
- 1 ½ tsk vanillusykur
- ½ tsk lyftiduft
- ½ dl hveiti
Krem
- 25 g smjör
- 3/4 dl rjómi
- 200 g After Eight
Aðferð
Hitið ofninn í 175° og smyrjið 24 cm form.
Brjótið suðusúkkulaðið í minni bita og setjið í pott ásamt smjörinu. Bræðið við vægan hita og hrærið reglulega í á meðan. Takið pottinn af hitanum og látið blönduna kólna aðeins.
Myljið kaffiduftið þannig að það verði fínmalað (ágætt að nota mortél).
Hrærið sykri, eggjum og kaffidufti í súkkulaðiblönduna og hrærið þar til deigið er slétt.
Blandið vanillusykri, lyftidufti og hveiti saman og sigtið ofan í súkkulaðideigið. Hrærið þar til deigið er slétt.
Setjið deigið í formið og bakið í neðri hluta ofnsins í 55-60 mínútur.
Krem
Setjið smjör og rjóma í pott og hitið að suðu.
Takið af hitanum og setjið After Eight plöturnar í pottinn. Hrærið þar til blandan er slétt.
Takið kökuna úr forminu og breiðið glassúrinn yfir.
Berið kökuna fram með rjóma og jarðaberjum ef vill.