Þær gerast nú varla mikið jólalegri smákökurnar… hvað þá betri!
Jólalegar súkkulaðikökur
Mér finnst rjómasúkkulaðið með bismark frá Nóa Siríus afskaplega gott. Og ég er virkilega ánægð með þessar smákökur sem eru einstaklega jólalegar og bragðgóðar. Það passar afar vel með myntunni að hafa kökurnar dökkar og dásamlegt að finna myntuna í munninum á eftir
Þessar sóma sér vel á jólakaffiborðinu.
Það sem þarf
2 ½ bolli hveiti
1 tsk matarsódi
½ tsk sjávarsalt
¾ bolli dökkt kakóduft
1 bolli mjúkt ósaltað smjör
1 bolli sykur
1 bolli púðursykur (ljós)
2 stór egg, við stofuhita
1 tsk vanilludropar
200-250 gr Bismark rjómasúkkulaði frá Nóa Siríus
Bismark brjóstsykur frá Nóa Siríus
Aðferð
Hitið ofninn að 180 gráðum og setjið bökunarpappír í ofnskúffur.
Skerið súkkulaðið í bita, hvorki of litla né of stóra. Ég notaði ca 1 og ½ stk af súkkulaðinu, en hver pakki er 150 gr.
Myljið nokkra brjóstsykursmola og setjið á disk.
Blandið hveiti, matarsóda, salti og kakó saman í skál. Setjið til hliðar.
Setjið smjör og sykur (bæði þann venjulega og púðursykurinn) í hrærivélaskál og hrærið saman þar til blandan er orðin mjúk. (Ég notaði reyndar örlítið af dökkum púðursykri saman við þann ljósa.)
Hrærið þá einu eggi í einu saman við smjörblönduna og bætið síðan vanilludropunum við.
Takið hveitiblönduna og bætið henni varlega saman við í nokkrum skömmtum. Ég sigtaði hana út í smjörblönduna. Blandið þessu vel saman, en deigið verður frekar þykk.
Bætið súkkulaðinu út í deigið og blandið vel saman með sleif.
Mótið kúlur, gott að nota ísskeið til að taka deigið upp úr skálinni.
Dýfið kúlunum ofan í brjóstsykurinn, en aðeins þeim hluta sem þið snúið upp á bökunarplötunni.
Raðið kúlunum á bökunarplötu og hafið gott bil á milli. Ég þrýsti kúlunum síðan örlítið niður áður en ég setti þær inn í ofn.
Setjið inn í ofn og bakið í svona 10 mínútur. En fylgist vel með kökunum og gætið þess að ofbaka þær ekki. Þær eiga að vera mjúkar í miðjunni þegar þær eru teknar út.
Takið út úr ofninum og leyfið þeim að vera í 2 til 3 mínútur á bökunarplötunni áður en þær eru settar á grind.
Færið kökurnar á bökunargrind og látið þær kólna alveg.
Njótið!
Jóna Péturs