Ertu í vandræðum með jólagjafirnar? Og langar þig kannski að gera eitthvað öðruvísi í ár?
Veistu ekkert hvað þú átt að gefa afa eða ömmu? Hvað þá frænku og frænda!
Hér eru nokkrar stórsniðugar hugmyndir sem þú getur útbúið sjálf/ur og um leið gert gjafirnar persónulegri.
Frábærar hugmyndir
Bókamerki
Falleg bókamerki eru skemmtileg gjöf og enn meira gaman að gefa slíkt þegar bókamerkið er orðið persónulegt. Búðu til bókamerki úr fallegum flauelisborða og festu gamaldags skraut á endann, jafnvel eitthvað persónulegt sem þú átt, til að ljá merkinu retró stíl.
Persónulegir púðar
Láttu útbúa fyrir þig persónulega púða með myndum af fjölskyldunni, börnum, gæludýrum, gamla heimilinu og öðru slíku. Afi og amma hafa gaman af því að fá mynd af sér með barnabörnunum á púða til að hafa í sófanum eða uppáhalds stólnum.
Fingravettlingar
Taktu venjulega fingravettlinga og gerðu þá persónulega með því að sauma í þá nafn, texta eða hvað það sem einkennir þann sem á að fá þá að gjöf. Áður en þú byrjar að sauma skaltu nota krítarpenna til að skrifa textann á vettlingana.
Vasaklútar
Vasaklútar eru falleg gjöf og tilvalin fyrir afa, ömmu, pabba og mömmu. Gerðu klútinn persónulegri með því að sauma fallegan texta í hann. Skelltu þeim síðan í fallegt box.
Einfaldir púðar
Einfaldur púði getur verið afar falleg gjöf þegar búið er að binda slaufu utan um hann. Ekkert vera að pakka púðanum inn. Náðu þér í fallegan borða og búðu til fallega slaufu utan um púðann og bættu svo greni eða jólaskrauti við. Þetta er sniðug gjöf til að taka með sér í veislur fyrir jólin og/eða til að setja undir jólatréð.
Heimabakaðar smákökur
Gleddu einhvern með þínum eigin heimabökuðu smákökum. Fáðu þér falleg glæra krukku og málaðu hvít snjókorn á hana með litlum pensli. Settu síðan kökur á botninn á krukkunni og bættu litlu einföldu og hentugu jólaskrauti þar ofan á og endaðu með því að setja fallegan borða efst á krukkuna.
Jólafötin fyrir vínið
Settu vínflöskurnar í jólafötin og gleddu vini og/eða ættingja. Þú getur notað gamlar peysur í þetta verkefni og klippt ermarnar af fyrir flöskurnar. Klipptu síðan hring til að setja undir og saumaðu svo saman.
Settu vínflöskuna í lokaða ermina og notaðu borða til að binda fallega slaufu efst.
Heimildir – Countryliving