Hvernig horfir þú á líf þitt og aðstæður þínar?
Finnst þér þetta allt saman vera hálf glatað? Og finnst þér þú kannski eiga meira skilið?
Hefurðu hugsað út í það hvort viðhorf þitt skipti máli í þessu samhengi?
Ef þú vilt öðlast betra líf ættirðu að kíkja á þetta
Þú og alheimurinn
Ef þér finnst alheimurinn vera á móti þér og allt í lífinu vera glatað er það líklega vegna viðhorfs þíns til lífsins. Þú horfir á heiminn og aðstæður þínar röngum augum. Og þú leyfir neikvæðum hugsunum að taka völdin í stað þess að horfa á það jákvæða og vera þakklát/ur. Með því að láta neikvæðnina taka völdin í huga þínum ertu um leið að láta hana stjórna lífinu. Slæmu og leiðinlegu hlutirnir sem þú einblínir á ná völdum, en aðeins af því þú sjálf/ur leyfir þeim það. Þú getur alveg snúið dæminu við.
Þú og vinnan
Leiðist þér vinnan þín? Það er reyndar fullt af fólki sem leiðist í vinnunni. En í stað þess að kvarta hversu leiðinlegt starfið er hvernig væri að reyna að gera vinnuna skemmtilegri eða þá að leita að öðru starfi sem gerir þig sáttari. Þú munt aldrei ná markmiðum þínum með því að vera í starfi sem þér leiðist því það sýgur úr þér alla orku og ástríðu.
Þú og draumar þínir
Dreymir þig um að ferðast og áttu þér leyndan draum um einhvern ákveðinn áfangastað? Ef þú situr og finnur endalaust upp nýjar ástæður og afsakanir fyrir því að láta þetta rætast þá geturðu verið viss um að það rætist ekki. Hættu að öfundast út í aðra sem leyfa sér að gera það sem þá langar til – notaðu frekar orkuna í að byrja undirbúa það sem þig langar að gera, byrjaðu að spara og skipuleggja… og framkvæmdu!
Þú og þyngdin
Viltu léttast og komast í betra form? Ekki fara í strangan og leiðinlegan megrunarkúr því þeir hvorki virka til langs tíma og svo gera þeir lífið leiðinlegra. Skiptu frekar um lífsstíl, borðaðu hollar og vertu fullkomlega meðvituð/meðvitaður um hvað þú lætur ofan í þig. Hugsaðu líka um að fá hreyfingu. Þetta er allt algjörlega undir þér sjálfri/sjálfum komið og hvernig þú horfir á það.
Þú og aðrir
Er fólk í kringum þig sem gerir þér lífið leitt? Ekki eyða orku þinni í fólk sem sýgur úr þér allan kraft því þú munt aldrei verða fullkomlega ánægð/ur og hamingjusöm/samur í lífinu ef þú ert sífellt að eyða orkunni í aðra. Losaðu þig við þessa einstaklinga og umvefðu þig fólki sem gefur eitthvað tilbaka.
Þú og gagnrýnin
Ertu sífellt að gagnrýna allt og alla? Hættu því! Einbeittu þér frekar að sjálfri/sjálfum þér og þínum málum og þínum þroska. Þú bætir ekki eigið líf með því að gagnrýna aðra – og svo kemur þér heldur ekkert við hvernig aðrir hafa það eða hvernig aðrir lifa sínu lífi.
Þú og óvinir
Heldurðu að þú eigir óvini sem standa í veginum fyrir því að þú eigir betra líf og náir markmiðum þínum? Hugsaðu þig tvisvar um! Því líklega ert þú sjálf/ur þinn versti óvinur. Þú sjálf/ur ert sú eina/sá eini sem stendur í veginum fyrir frekari þroska þínum, sigrum og árangri.
Þú og betra líf
Finnst þér þú eiga hitt og þetta skilið? Og finnst þér þú eiga betra skilið í lífinu? Það er örugglega rétt – þú átt betra skilið. En það er hins vegar enginn sem á að færa þér þetta á silfurfati því ef þú vilt eitthvað þá þarftu að vinna fyrir því sjálf/ur. Það á enginn neitt skilið, þannig er það bara. Við þurfum að leggja okkur fram og hafa fyrir hlutunum, öðruvísi gerast þeir ekki.
Þú og framtíðin
Hafðu trú á sjálfri/sjálfum þér þegar enginn annar hefur það. Þú þarft fyrst og fremst að treysta á sjálfa/n þig því þú ert ábyrg/ur fyrir eigin lífi. Og ef þú hefur ekki sjálf/ur trú á þér hefur það enginn annar. Þú ert sú eina/sá eini sem getur látið drauma þína rætast!