Eiga þeir sem lifa lengi eitthvað eitt sameiginlegt?
Og hver er galdurinn á bak við langlífi?
Vísindamenn segja að það sem við látum ofan í okkur, hreyfing og gen ráði því hversu lengi við lifum. En er það endilega alveg rétt?
Þeir sem hafa fagnað meira en hundrað árum eru ekki alveg sammála og virðist þetta vera afskaplega einstaklingsbundið. Á meðan sumir borða súkkulaði út í eitt og drekka áfengi daglega þá eru aðrir sem snerta ekki vín og borða hollt alla ævi – og hvort um sig virðist virka.
Hér eru ráð frá 12 einstaklingum sem allir náðu að fara vel yfir hundrað árin
Emma Morano 117 ára
Hin ítalska Emma var elsta lifandi manneskjan í heiminum, rúmlega 117 ára, þegar hún lést. Og leyndarmál Emmu á bak við langlífið kemur líklega einhverjum á óvart. Á hverjum einasta degi í um 90 ár borðaði hún egg – og hún borðaði næstum aldrei ávexti eða grænmeti.
En smákökur borðaði hún hins vegar í miklu magni og er hún sögð hafa falið kökurnar undir koddanum sínum svo enginn borðaði þær frá henni.
Agnes Fenton 112 ára
Agnes var frá New Jersey í Bandaríkjunum en hún lést 112 ára að aldri. Agnes þakkaði langlífi sitt bjórdrykkju og vískí. En Agnes drakk þrjár flöskur af Miller bjór og eitt glas af víski daglega .
Þetta gerði hún í 70 ár eftir að læknir ráðlagði henni að drekka bjór á hverjum degi heilsu hennar vegna.
Gertrude Weaver 116 ára
Gertrude þakkaði einfaldlega góðmennsku sinni langlífið. Hennar ráð til okkar hinna ef við viljum lifa lengi er að vera góður við aðra og koma fram við aðra eins og þú vilt að þeir komi fram við þig.
Þá þakkaði hún góða heilsu því að hafa hvorki reykt né drukkið áfengi og gætt þess að fá nægan svefn.
Jessie Gallan 109 ára
Hún borðaði mikið af búðingi allt sitt líf en langlífið þakkar hún þó því að hafa haldið sig frá karlmönnum alla ævi. Hún giftist aldrei enda taldi hún karlmenn bara vera vesen og það væri því ekki þess virði að standa í þessu.
Jessie gætti þess að fá næga hreyfingu, umvefja sig góðu fólki og vinna mikið.
Paul Marcus 103 ára
Paul vildi meina að heppni væri það sem lægi á bak við langlífi sitt. Hann sagði góð gen, heppni og það að borða ekki hollt væri leyndarmálið að því að lifa lengi. Og því til sönnunar sagðist hann bara borða það sem sig langaði í og ís væri lykillinn að langlífi.
En Marcus var líka duglegur að mæta í ræktina og það gerði hann meira að segja eftir hundrað ára afmæli sitt.
Alexander Imich 111 ára
Aleexander lést árið 2014 en hann þakkaði langlífið því að vera alltaf í fullkomnu formi og stundaði hann meðal annars sund og fimleika. Þá borðaði hann hollt og hélt sig frá áfengi en mataræði hans samanstóð meðal annars af kjúklingi og fiski.
Duranord Veillard 111 ára
Duranord lést í júní árið 2018 þá 111 ára, og eiginkona hans lést aðeins 6 mánuðum seinna 108 ára gömul. En Duranord sagðist byrja hvern einasta dag á því að fá sér hafragraut, ávöxt og te og enda daginn á fiski og grænmeti. Þá tók hann einnig fimm til sjö armbeygjur á hverjum morgni, meira að segja þegar hann var kominn langt yfir hundrað árin.
Adelina Domingues 114 ára
Adelina tók engin lyf, braut aldrei bein í skrokknum og þurfti aldrei að fara á sjúkrahús.
Og hvað er hennar leyndarmál?
Jú, hún notaði aldrei snyrtivörur – en það er hennar skýring. Hún steig aldrei fæti inn í snyrtivöruverslun enda sagðist hún aldrei hafa verið hégómagjörn. Við þetta má bæta að hún hvorki reykti né drakk og taldi trú sína vera eitt besta meðalið.
Susannah Mushatt Jones 116 ára
Susannah sem lést í maí 2016 sagðist ætíð hafa gætt að svefninum og passaði að sofa nóg á hverri nóttu. Og morgunmatur hennar samanstóð af eggjum, beikoni og grits (sem er nokkurs konar maísgrautur).
Ruth Coben 103 ára
Þótt Ruth hafi verið komin vel yfir hundrað árin lyfti hún enn lóðum og stundaði pilates einu sinni í viku. Hún var mikil skvísa og ávallt vel til höfð. Hennar mottó fyrir langlífi var að fagna hverjum degi og ekki horfa á dagatalið. Hún trúði því líka að á meðan þú gætir hreyft þig þá gætirðu líkað stundað einhvers konar hreyfingu.
George Boggess 104 ára
Hans ráð fyrir löngu lífi er að ganga mikið en hann þakkar það fyrst og fremst langlífi sitt enda gengið mikið um ævina.
Misao Okawa 117 ára
Hin japanska Okawa þakkaði sushi áti, nægum svefni (8 tíma á nóttu) og slökun fyrir háan aldur sinn.
En það er algengt í Japan að fólk nái háum aldri og er talið að fitulítil fæðan spili þar stóran þátt.
Heimild – Health