Fyrir rúmum tveimur árum síðan fór Jennifer í brjóstamyndatöku af því hún hafði grun um að eitthvað væri að. Hún hafði tekið eftir rauðum bletti á vinstra brjóstinu sem í raun leit út eins og sólbruni og fannst réttast að láta skoða það.
Brjóstamyndataka sýndi hins vegar ekkert óeðlilegt og læknirinn sem las úr niðurstöðunum sendi Jennifer heim með þau skilaboð að líklega væri brjóstahaldarinn hennar bara of lítill.
Bletturinn fór ekki
Læknirinn hennar hafði sannfært hana um að ekkert væri að þar sem brjóstamyndirnar sýndu ekkert óeðlilegt og blóðsýni ekki heldur. En bletturinn fór ekki og Jennifer var hætt að lítast á blikuna svo hún tók sig til og „gúgglaði“ þetta. Það sem poppaði upp í leitinni setti hana hljóða og hún varð skelfingu lostin.
Þegar Jennifer var farin að finna fyrir verkjum var hún sannfærð um að eitthvað alvarlegt væri að. Henni tókst að komast að hjá færasta brjóstasérfræðingi í Dallas þar sem hún býr. Sá læknir tók vefjasýni og niðurstöður þess staðfestu ótta Jennifer. Hún var með fjórða stigs bólgukrabbamein í brjósti og meinið hafði náð að dreifa sér frá brjósti og eitlum út í bein og lifur. Þegar þessi niðurstaða lá fyrir var liðið næstum ár frá því hún fyrst leitaði sér hjálpar.
Sjaldgæft en mjög alvarlegt
Bólgukrabbamein í brjósti er tiltölulega sjaldgæf en mjög alvarleg og ágeng tegund af brjóstakrabbameini. Helsta einkenni þess er roði á hluta eða öllu brjóstinu – í roðanum er jafnframt hiti. Stundum kemur roðinn og fer. Þrátt fyrir að þessi tegund krabbameins sé nokkuð sjaldgæf hefur tilfellum fjölgað undanfarin 20 til 30 ár.
Við greiningu voru Jennifer gefin þrjú til fimm ár. Með því að segja sögu sína vonast hún til þess að geta frætt aðrar konur sem hugsanlega eru eða lenda í sömu stöðu og hún. Og þá aðallega í þeim tilgangi að geta bjargað öðrum þótt það sé of seint fyrir hana sjálfa.
Ef þú sérð eitthvað óeðlilegt eða finnur eitthvað óeðlilegt skaltu strax láta skoða það. Og það sakar heldur aldrei að fá álit annars læknis.
Nú er bleikur október – pantaðu tíma í skoðun hjá Leitarstöð Krabbameinsfélagsins.
Sjáðu sögu Jennifer í myndbandinu hér að neðan