Það hefur gjarnan þótt eftirsóknarvert að hafa gott minni og muna bókstaflega allt – og hafa ófáir tengt það við mikla greind.
Vissulega getur fullkomið minni komið sér afar vel í skóla og í prófum og slíku en ef þú ert ein/n af þeim sem átt það til að gleyma alls kyns hlutum eru hér góðar fréttir fyrir þig.
Að gleyma nöfnum og slíku
Þegar við gleymum nöfnum eða skemmtilegum staðreyndum líður okkur stundum eins og kjánum og finnst heili okkar ekki virka sem skyldi. Enda hvað er málið með að fara í búðina og gleyma síðan að kaupa einmitt það sem vantaði? Og þá veltir maður því fyrir sér hvað sé eiginlega í gangi og hvort það sé virkilega allt í lagi í hausnum á manni.
Ekkert óeðlilegt við það
Ef eitthvað mark er takandi á vísindunum þá er þetta víst allt í góðu og ekkert óeðlilegt. Rannsókn sem gerð var í Toronto og birt í Neuron Journal sýnir fram á að það að gleyma er algjörlega eðlileg heilastarfsemi og gæti þegar upp er staðið sýnt fram á að þú ert mun gáfaðri en þú hélst. En rannsóknin bendir til að fullkomið minni hafi nákvæmlega ekkert með greind að gera. Og það að gleyma stöku smáatriðum geri þig í raun greindari. Þannig að þeir sem muna allt eru ekki þeir gáfuðustu.
Þeir sem að rannsókninni standa segja það heilanum mikilvægt að gleyma smáatriðum sem skipti ekki máli og einbeita sér frekar að þeim hlutum sem hjálpa okkur við að taka ákvarðanir í lífinu. Það er því víst heilastarfseminni alveg jafn mikilvægt að gleyma eins og að muna. Að muna heildarmyndina í stað smáatriða eru í raun betra fyrir heila okkar til langs tíma litið. Þetta hjálpar okkur að gera okkar besta í því að taka réttar ákvarðanir þar sem heilinn man það sem skiptir máli og gleymir hinu.
Andlit eða nafn?
Átt þú t.d. auðveldara með að muna andlit en nöfn?
Ef þú spáir í því þá skiptir líka mun meira máli að muna andlit einhvers heldur en nafn hans.
Ekki aðeins ákveður heilinn hvað er mikilvægt að muna og hvað ekki heldur varðveitir hann nýjar minningar og skrifar yfir þær gömlu. Þegar heilinn verður of fullur af minningum myndast frekar átök sem hindra skilvirkni í ákvarðanatöku – og í lífinu erum við endalaust að taka ákvarðanir.
Að sjálfsögðu er hér ekki verið að tala um alvarlegt minnisleysi heldur að það sé alveg eðlilegt að gleyma stöku sinnum. Svo næst þegar þú manst ekki eitthvað hafðu þá bara í huga að heilinn er að vinna vinnuna sína og þú ert alls ekki vitlaus heldur bara nokkuð klár.
Heimild – sciencedaily