Með aldrinum og eftir mikla notkun í gegnum tíðina verða liðir og vöðvar líkamans ekki jafn samvinnufúsir og áður.
Við þetta bætist að með hærri aldri er eðlilegt að það hægist á brennslunni – en við hvern og einn áratug sem bætist við er talið að við brennum að meðaltali einu til tveimur prósentum færri hitaeiningum en áður.
Ástæða þess er sú að eftir því sem árunum fjölgar þá minnkar vöðvamassi líkamans. Sem leiðir til þess að við förum að fitna og talan á vigtinni fer upp. Og ef við gætum ekki að okkur geta aukakílóin læðst hratt aftan að okkur og hrúgast upp.
En góðu fréttirnar eru þær að það má bregðast við þessu og gæta þess að ekki of mikið tapist af vöðvamassa líkamans – og ef það gerist, eða hefur nú þegar gerst, þá má byggja vöðvamassann upp aftur.
Hér eru nokkur trix sem hjálpa þér að losna við kílóin
Gættu að hormónunum
Með aldrinum fer hormónastarfsemi líkamans úr skorðum og margt breytist. Konur fara í gegnum breytingaskeið og það á einnig við karla – en margir þeirra fara einnig í gegnum sitt breytingaskeið.
Mikilvægt er að vera vakandi fyrir þessu því þetta er einmitt tímabilið þar sem líkaminn byrjar að safna fitu. Testósterón er það hormón sem mestu skiptir í þessu málum. Þegar nóg er af því í líkamanum er auðveldara að halda sér grönnum og/eða að grennast.
Leiðir til að auka testósterón felast m.a. í því að byggja upp vöðva líkamans og borða ostrur, lax, lárperur, hnetur og fræ, kalkún, egg og spergil.
Lyftu lóðum fyrir vöðvana
Um fimmtugt er vöðvamassi líkamans 20 prósentum minni en hann var þrjátíu árum áður. Og með minni vöðvamassa hægir á brennslunni.
En góðu fréttirnar eru þær að úr þessu má bæta. Með því að byrja að lyfta lóðum og með góðu æfingakerfi má snúa dæminu við. Æfingar með lóðum auka vöðvamassa líkamans og með auknum vöðvamassa brennir líkaminn meiri hitaeiningum og eykur líkurnar á því að grennast.
Málið er að fita brennir nefnilega ekki hitaeiningum.
Breyttu fæðuvalinu
Það er mikilvægt að hafa það í huga að með aldrinum þarftu að breyta því hvernig þú borðar og hvað þú borðar. Þú þarft á fleiri næringarefnum að halda en færri hitaeiningum. Svo þú getur gleymt því að leyfa þér að innbyrða tómar hitaeiningar sem gera ekkert annað fyrir þig en að setjast utan á þig. Þótt þú hafir komist upp með það áður fyrr þá er það nú liðin tíð.
Nú skiptir öllu máli að fá næringarríka fæðu eins og grænmeti, ávexti og magurt kjöt.
Gættu að stressinu
Með aldrinum eykst streita gjarnan hjá fólki og þeir sem eru um fimmtugt hafa flestir mikið á sinni könnu. En alls ekki láta stressið taka völdin – því eins ótrúlegt og það hljómar að þá er streitan fitandi.
Þegar fólk er stressað borðar það oft meira eða óhollara og sleppir því að hreyfa sig eða mæta í ræktina. Stressið er því fljótt að hækka töluna á vigtinni.
Finndu tíma til að slaka á – og gefðu þér tíma til að stunda einhverja hreyfingu í hvaða formi sem það er.
Farðu varlega – en samt ekki of varlega
Margir finna fyrir líkamlegum óþægindum með hærri aldri og erfiðara getur verið að hreyfa sig. Ekki ganga of nærri þér en ekki heldur sleppa því að hreyfa þig því þá geturðu gert ástandið enn verra.
Skynsamlegt er að einbeita sér að æfingum sem reyna ekki of mikið á liðina. Góð ganga stendur t.d. alltaf fyrir sínu og það sama á við sundið. Þá gæti hjólatúr líka verið málið ef liðirnir eru erfiðir og ekki má gleyma að jóga mýkir og teygir á líkamanum.
Ekki samt fara of varlega því það skiptir líka miklu máli að ögra sjálfum sér aðeins til að sjá árangur.
Ef þú treystir þér ekki til að byrja að æfa og stunda reglulega hreyfingu gæti verið sniðugt að tala við sjúkraþjálfara og fá hann til að koma þér af stað með réttum æfingum.