Fjögurra ára gömul talar Bella reiprennandi sjö tungumál og þykir mikill snillingur. Móðir hennar segir þó dóttur sína alls ekki vera undrabarn heldur sé þetta afrakstur mikils tíma og vinnu.
Fjölskyldan er frá Moskvu í Rússlandi en foreldrar Bellu tóku þá ákvörðun strax í upphafi að þroski og þróun hennar yrði forgangsatriði og hafa þau einbeitt sér að því og notað tíma sinn í að þjálfa dóttur sína og kenna henni. Þau hafa því eytt miklum tíma og orku í þennan stórkostlega árangur. Móðir Bellu, sem er tungumálafræðingur, hefur engar áhyggjur af því að Bellu muni leiðast þegar hún hefur venjulega skólagöngu. Hún segir dóttur sína hafa sömu þekkingu og hvert annað fjögurra ára gamalt barn – munurinn sé bara sá að hún er fær um að ræða allt það sem hún kann á mörgum ólíkum tungumálum.
Strax við fæðingu
Frá því Bella fæddist talaði móðir hennar við hana bæði á rússnesku sem ensku því þau vildu að hún talaði ensku jafnvel og sitt eigið móðurmál. Þegar Bella var 10 mánaða bættu þau frönsku við og þegar hún var tveggja ára gömul var hún fluglæs.
Og þegar hún var ekki orðin þriggja ára bættu þau kínversku inn í prógrammið. Nokkrum mánuðum seinna, eða þegar Bella var þriggja ára og tveggja mánaða sýndi hún sjálf áhuga á því að læra spænsku og þýsku sem og að fá að læra að dansa, spila á fiðlu og syngja. Þá var arabísku bætt við stuttu seinna.
Allur lærdómur Bellu fer fram í gegnum leik. Og eins og mamma hennar segir þá er Bella ósköp venjuleg fjögurra ára stelpa sem fer í feluleik og les barnabækur – en hún les þær bara á mörgum ólíkum tungumálum. Það er svo sem ekkert alveg venjulegt við það heldur nokkuð sérstakt að svona ungt barn geti lesið á sjö ólíkum tungumálum þar sem letrið og stafrófið er ekki einu sinni það sama.
Dreymir um að verða prinsessa eða hafmeyja
Í myndbandinu hér að ofan er Bella gestur í þætti í Ástralíu þar sem hún leikur á als oddi. Hún er ósköp kát og skemmtileg fjögurra ára stelpa sem dreymir um að verða prinsessa eða hafmeyja þegar hún verður stór. Síðan þessi þáttur var sýndur í ágúst er Bella orðin fimm ára gömul og ferðast um heiminn til að sýna kunnáttu sína. Og þótt það sjáist kannski ekki fullkomlega í þessu myndbandi að þá getur Bella vel haldið upp samræðum á að minnsta kosti sjö tungumálum en þau eru rússneska, enska, franska, kínverska, spænska, þýska, og arabíska (og hún kann líka ítölsku).