Elísabet Bretlandsdrottning er 93 ára og þykir með eindæmum hress og skörp.
Hún sinnir enn skyldum sínum og gefur ekkert eftir í þeim efnum. Drottningin veit nákvæmlega hvernig hún vill hafa hlutina og stjórnar höllinni á sinn hátt.
En hvað er það sem heldur henni svona unglegri og sprækri?
Líklega spila genin eitthvað þar inn í en móðir hennar varð rúmlega 101 árs og þótti með eindæmum hress kona.
Fjórir drykkir á dag
Það er hins vegar áhugavert að skoða lífsvenjur drottningarinnar og hvað það er sem hún borðar og drekkur. En Elísabetu þykir víst gott að fá sér glas af góðum drykk. Haft er eftir frænku hennar að drottningin hafi ákveðna siði í þeim efnum og drekki ekki hvað sem er. Og eitt sé á hreinu og það er að drottningin drekki fjóra drykki á dag.
Samkvæmt frænkunni þykir Elísabetu gott að fá sér gin og Dubonnet með sítrónu og klaka fyrir hádegisverð. Þá fær hún sér léttvínsglas með hádegismatnum og þurran martini kokteil á kvöldin og glas af góðu kampavíni fyrir svefninn. Frænkan segir að þetta geri drottningin daglega. Og gleymum ekki að hún er á tíræðisaldri.
Mjög öguð
En drottningin er mjög öguð í því hvað hún borðar og er haft eftir starfsfólki hennar að hún borði til að lifa en ekki öfugt – hún er sem sagt ekki mikill matgæðingur. Elísabet er hörð við sjálfa sig og borðar hollt en leyfir sér þó alltaf að fá sér súkkulaði eftir matinn.
Þótt drottningin sé mjög passasöm þegar kemur að mat þá er hún alltaf til í að prófa nýja hluti og er t.d. kínóa og grænkál á matseðli hennar, ásamt morgunkorni, eggjum og reyktum laxi. Þá sneiðir hún gjarnan hjá sterkju og kýs lágkolvetna máltíð í hádeginu.