Til hvers!
Vaknaði klukkan þrjú að nóttu vegna verkja. Tók parkódín og sofnaði en vaknaði aftur þremur og hálfum tíma seinna með verki.
Hringdi á heilsugæsluna sem sagði mér að hringja í 112 ef þetta væri neyðartilfelli og þar sem að vinkona mín sagði að kvensjúkadómalæknirinn hefði „bjargað“ lífi hennar þá hvarflaði það að mér að hringja í 112 og biðja um parkódín forte! En ég hætti við það og vakti tengdamömmu í staðinn sem gat bjargað mér, og tveggja tíma fundinum sem ég átti framundan með þurru Bretunum var reddað.
Full af fordómum en engum hormónum
Einhvern tímann þarna á milli, algjörlega sljó sem slytti, tókst mér að redda tíma hjá kvensjúkdómalækni sama dag. Ég mætti á réttum tíma og mín fyrstu viðbrögð voru að læknirinn væri örugglega að spila með íslenska landsliðinu í fótbolta, en þar sem landsliðið var í Hollandi gat það ekki verið – eða þá að hún hefði að minnsta kosti keppt í crossfit meðan á náminu stóð.
Full af fordómum, en engum hormónum, yfir þessari flottu konu var ég þess fullviss að hún hefði ekki getað fengið háar einkunnir lítandi svona út. Eða þar til hún opnaði munninn og ég heyrði að hún var ekki bara flott heldur líka gáfuð. Eins og við erum svo margar íslensku konurnar! En niðurstaðan var að einhverjir hlutar þarna niðri eru farnir að „skorpna“ en annars liti ég út eins og táningur. Með þessi orð í huga fór ég í apótekið og keypti mér göngugrind, þvaglegapoka og fékk fullan poka af lyfjum.
Kom heim og tilkynnti fjölskyldunni að neðsta skúffan í baðinnréttingunni væri mín (fyrir öll lyfin), ég væri farin að versla í Verðlistanum og ætlaði bara að drekka sérrí hér eftir…
Konur vita þetta bara sjálfar
En til hvers?
Ég þarf ekkert líkamann á mér til að segja mér að ég ætli ekki að eiga fleiri börn! Ég er fyrir löngu farin að halla mér frekar að flöskunni um helgar og hætt að spila Rommý við son minn! Ég er fyrir löngu hætt. Þannig að þetta hlýtur að vera eins og með allt annað – vígtennurnar rúnnast í okkur, ýmis líffæri verða óþörf og kannski eftir 150 ár hætta konur á breytingaskeiðinu. Þær vita það bara sjálfar að þær nenna ekki lengur að eiga fleiri börn.
AMEN, KÚMEN…
Anna Þórunn Reynis