Það getur verið vandratað í dag að borða rétt og hollt og stundum veit maður varla hverju má trúa og hvað er í lagi að borða og hvað ekki.
Þetta á t.d. við um kókosolíuna en hún hefur verið markaðssett þannig að hún sé ekki eingöngu meinholl heldur allra meina bót. Og því hafa neytendur tekið því fagnandi.
En er hún svona holl?
Nýlega hafa hins vegar komið fram fréttir um að kókosolían sé með sömu áhættuþætti og smjör og feitt kjöt. Þeir eru að hið svokallaða slæma kólesteról getur hækkað með óhóflegri neyslu þessarar fitu.
Guðmundur Þorgeirsson hjartalæknir og prófessor emeritus í lyflæknisfræði var nýlega gestur Heilsuvaktarinnar í Mannlega þættinum á RÚV en hann segir að í dag teljist ekki heildarfitan í mataræðinu skipta lykilmáli heldur samsetning fitunnar og hlutföll mettaðrar fitu, einómettaðrar og fjölómettaðrar í fæðunni.
Að mestu leyti mettuð fita
„Kókosolían er jurtaolía og það hefur almennt verið gæðastimpill þegar olía kemur úr jurtaríkinu. Hins vegar harðnar hún við stofuhita og er að mestu leyti mettuð fita eða um 90%. Gagnstætt því sem er í ólífuolíu þar sem 70% er einómettuð fita og mjög lítil mettuð fita þótt hún sé einhver. Þannig að það er strax óeðlilegt að ímynda sér að kókosolían sé svona gríðarlega holl með allri þessari mettuðu fitu um borð,“ segir Guðmundur.
Hjartalæknasamtökin í Bandaríkjunum og bandarísku hjartaverndarsamtökin létu nýverið gera ítarlega úttekt á öllum gögnum sem liggja fyrir um kókosolíu. Niðurstaðan er sú að það er engin stoð fyrir því að þetta sé einhver hollustufæða heldur þvert á móti. Þar sem þetta er mettuð fita þá hækkar hún kólesteról í líkamanum, og kólesteról er eins og flestir vita einn helsti skaðvaldur kransæðasjúkdóma.
Guðmundur bendir þó á að ekki liggi fyrir neinar vandaðar rannsóknir sem svari því hvort kókosolían sé svona óholl og valdi kransæðasjúkdómum eða hafi einhverj hollustu í för með sé. En í dag sé fólki alla vega ráðlagt að neyta hennar í hófi.
Birt með góðfúslegu leyfi Helgu Arnardóttur Fréttastofu RÚV.