Mér finnst alltaf skemmtilegt að bera litlar einstaklings kökur fram sem eftirrétt og þessar volgu súkkulaðibitakökur klikkuðu ekki.
Þetta er raunverulega eins og stór og þykk smákaka – og hver elskar ekki smákökur!
Ef þið hafið prófað litlar fljótandi heitar súkkulaðikökur þá verðið þið að prófa þessar en þær eru einmitt í svipuðum dúr.
Uppskriftina að þessum ljúffengu litlu kökum fékk ég hjá henni Nigellu.
Það sem þarf
150 gr hveiti
½ tsk fínt sjávarsalt
½ tsk matarsódi
110 gr ósaltað smjör, mjúkt
85 gr púðursykur
1 tsk vanilludropar
1 stórt egg
170 gr dökkir súkkulaðidropar
Aðferð
Hitið ofninn að 180 gráðum.
Takið hveiti, salt og matarsóda og blandið saman í skál. Setjið til hliðar.
Hrærið sykur og smjör saman í skál þar til blandan er orðin létt og kremkennd.
Bætið vanilludropum og eggi saman við smjörblönduna og hrærið létt saman.
Blandið þá hveitiblöndunni út í og hrærið varlega saman.
Setjið súkkulaðidropana að lokum út í og hrærið saman með sleif eða sleikju.
Skiptið deiginu í skálar (ég notaði 6 litlar skálar).
Notið skeið til að dreifa vel úr deiginu í botninn á skálunum/formunum og sléttið deigið efst.
Látið inn í ofn og bakið í 13 til 15 mínútur eða þar til kökurnar eru orðnar gylltar á brúnum – og aðeins farnar að losna frá hliðum formsins.
Takið þá út og látið kólna í 5 til 10 mínútur.
Njótið síðan með vanilluís eða léttþeyttum rjóma. En best er að borða kökurnar volgar.
jona@kokteill.is