Það getur verið erfitt að halda þyngdinni í skefjum og því oft auðvelt að falla fyrir skyndilausnum. En það er mikilvægt að átta sig á því að skyndilausnir virka ekki!
Ekki falla fyrir nýjasta megrunarkúrnum sem á að gera kraftaverk – hann mun ekki gera kraftaverk fyrir þig. Því þetta snýst auðvitað fyrst og fremst um breyttan lífsstíl og skuldbindingu.
Það eru ákveðnir þættir sem geta hjálpað til við þyngdartap og til að halda þyngdinni í skefjum.
Hér eru 5 atriði sem þú ættir að hætta viljir þú sjá varanlegan árangur
1. Að neita sér um vissar fæðutegundir
Öll eigum við okkar uppáhalds sætindi eða ruslfæði sem getur verið erfitt að láta á móti sér öllum stundum. En að setja það á bannlista gerir lítið annað en að auka löngunina í þetta.
Þess vegna þykir ekki skynsamlegt að taka allt slíkt út af innkaupalistanum. Leyfðu þér þetta – en í hófi. Og þegar þú leyfir þér þá skaltu vera algjörlega meðvituð/meðvitaður um hvað þú ert að borða og hversu mikið og gæta þess að njóta hvers einasta bita – ekki bara gleypa þetta í þig.
2. Að sofa ekki nóg
Gættu þess að fá alltaf nægan svefn. Að vera ósofin/n eykur á hungurtilfinningu og leiðir frekar til þess að þú borðir bara eitthvað og án þess að veita því sérstaka eftirtekt hvað þú ert að láta ofan í þig og hversu mikið.
3. Að fara í megrun
Ekki freistast til þess að reyna að losna við nokkur kíló á skömmum tíma. Megrunarkúrar virka ekki og eru lítið annað en skammtíma lausn. Það að léttast og halda þyngdinni í skefjum er ekki spretthlaup heldur maraþon.
Með því að drekka einungis safa eða borða bara sömu fæðutegundina í nokkra daga gerir lítið annað en að hægja á brennslunni og þótt þú léttist þá þyngist þú fljótt aftur. Megrunarkúrar eru ekki langtíma lausn.
4. Að sleppa úr máltíð
Það hljómar kannski vel að sleppa hádegismat og fá sér síðan góðan kvöldverð og spara þannig fullt af hitaeiningum. En þannig virkar þetta alls ekki.
Fyrir brennsluna er best að borða á fjögurra tíma fresti. Að sleppa úr máltíð getur bæði leitt til ofáts sem og hægt á brennslunni.
5. Að borða fituskertar fæðutegundir
Alls ekki hugsa um fitu sem óvin númer eitt. Við þurfum á fitunni að halda. Að taka alla fitu út úr fæðunni leiðir til meiri löngunar í mat og eykur þar með líkurnar á ofáti.
En veldu fituna vandlega – og hér eins og í öðru snýst þetta um að allt er gott í hófi.