Þegar við pöntum okkur vínglas eða kaupum flösku af rauðvíni hugsum við ekkert sérstaklega út í það að val okkar á víni geti sagt eitthvað um persónuleika okkar.
Við erum fyrst og fremst auðvitað að fara eftir eigin smekk og því sem okkur finnst bragðgott. Sumt höfðar til okkar og annað síður.
En getur það samt ekki verið að val okkar endurspegli á einhvern hátt persónuleika okkar?
Flestir eiga sitt uppáhalds vín
Flestir eiga sitt uppáhalds vín og margir einnig sína uppáhalds þrúgu. Sumir leggjast í sortir, eins og sagt er, og velja sér alltaf sömu þrúguna frá sama landinu eða héraðinu. Vissulega er það persónulegt mat hvers og eins hvernig vín bragðast, en þegar vín er metið eru ákveðin atriði sem hafa þarf í huga. Það er síðan heildarbragð vínsins sem ræður vali okkar. Þegar talað er um heildarbragð er átt við sambland lyktar og bragðs.
Þar sem við erum öll ólík og höfum ekki sama lyktar- og bragðskyn er misjafnt hvaða vínþrúga höfðar til hvers og eins. Þeir sem „stúdera“ vín og val okkar á því eru með ákveðnar kenningar um hvað valið segir um persónuleika okkar.
Skoðum nokkrar rauðvínsþrúgur
Hvað segir val þitt á rauðvíni um þig? Skoðum hér nokkrar vínþrúgur og sjáum hvað einkennir þá einstaklinga sem þær velja.
Zinfandel-þrúgan
Er aðallega ræktuð í Kaliforníu í Bandaríkjunum. Nákvæmlega sama þrúgan er notuð í bæði rauðvín og hvítvín. Áður en hvítvínið er búið til er skinnið tekið af rauðum berjunum.
Litur rauða Zinfandel vínsins er mjög dökkur og á mörkum þess að vera svartur. Vínið er kryddað og piprað, með vott af ávaxtabragði og eru ber eða dökk kirsuber þá alls ráðandi. Segja má að rautt Zinfandel sé klassískt amerískt vín.
Þeir sem velja rautt vín úr Zinfandel-þrúgunni eru taldir lítillátir en úthverfir einstaklingar.
Merlot-þrúgan
Er sögð vera göfugur ættingi Cabernet þrúgunnar. Hún hins vegar þroskast fyrr, hefur minna tannín og gefur af sér fyllra og mýkra vín. Bragði vínsins svipar oft til Cabernet vína en er þó með mildari krækiberjabragði og auk þess má stundum finna meira bragð af plómum, rósum og ávaxtaköku.
Einstaklingar sem velja Merlot-þrúgu í víni eru taldir vera skapgóðir og hafa tilhneigingu til að berast með straumnum.
Cabernet Sauvignon
Vín úr þessari þrúgu verða öll betri með aldrinum. Ber þrúgunnar eru smá með miklum og djúpum lit og er hýðið seigt. Þetta seiga hýði gefur víninu tannín, fyllingu og ilm. Bragð þess ber keim af krækiberjum, sedrusviði, vindlakassa, blýanti, papriku, myntu, dökku súkkulaði, tóbaki og ólívum.
Segja má að Cabernet Sauvignon séu George Clooney eða Katherine Hepburn vínanna því þau eldast svo vel.
Þeir einstaklingar sem velja vín úr þessari þrúgu eru fágaðir og hafa náttúrulegan og eðlilegan glæsibrag til að bera.
HÉR má svo sjá umfjöllun um hvítvín og kampavín