Hvernig fara franskar konur að því að borða osta og súkkulaði – og skola því niður með rauðvíni án þess að fitna?
Það er alþekkt hvað franskar konur eru yfirleitt grannar og smart. Og það er líka vel þekkt að þær stunda hvorki megrunarkúra né eyða deginum í ræktinni. Þær eru samt bara einhvern veginn alveg með þetta.
Leyndarmál þeirra
Leyndarmál þeirra felst í menningunni og uppeldi þeirra, en alveg frá barnæsku læra þær að umgangast mat af virðingu og sem eitthvað sem ekki á að flýta sér við.
Hér eru nokkur atriði sem einkenna franskar konur upp til hópa
Virðing og ruslfæði
Af því frakkar umgangast mat af virðingu leyfa franskar konur sér ekki að borða ruslfæði þegar þær eru á ferðinni. Þótt frakkar séu afar uppteknir af mat, og sumir myndu segja þá heltekna af mat, þá snýst það fyrst og fremst um gæði og fegurð en ekki magn.
Fyrir frakka snýst máltíðin ekki síður um samveruna og samræðurnar en matinn. Þetta gerir það að verkum að þeir gleypa matinn ekki í sig.
Að velja gæði
Franskar konur vilja aðeins það besta, ferskasta og sérstakasta. Þær halda sig við þá reglu að velja betri og dýrari kostinn heldur en það ódýrara í miklu magni. Þær velja t.d. frekar nokkra dökka og dýra súkkulaðibita en ódýran ís í dós.
Það skiptir engu máli hvort þær eiga lítið eða mikið af peningum – því þetta er hugsanagangurinn og svona lifa þær.
Borða hægt og njóta
Þú sérð fólk í Frakklandi almennt ekki gleypa í sig því máltíðin er dýrmæt stund. Þess vegna leggja franskar konur oft hnífapörin frá sér þegar þær eru að borða. Að borða hægt, tyggja matinn og njóta er innprentað í matarmenningu þeirra.
En það getur skipt miklu máli upp á aukakíló og þyngd að borða hægt.
Neita sér samt ekki um það sem þeim þykir gott
Franskar konur gera sér fulla grein fyrir því að Croissant, kökur og Brie ostur geta verið fitandi og því sé ekki skynsamlegt að borða slíkt oft á dag eða á hverjum degi. Þær leyfa sér samt og láta eftir sér – en allt innan skynsamlegra marka og auðvitað lítið í einu.
Auðvitað kemur það fyrir að þessar konur fá sér aðeins of mikið af einhverju og brjóta þá reglu að gæta hófs. En þá refsa þær sér ekki með því að svelta sig næsta dag eða gera út af við sig í ræktinni.
Á milli mála
Þar sem máltíðir í Frakklandi eru mikilvægur hluti af menningunni þá borða franskar konur ekki mikið milli mála. Vissulega fá þær sér kaffi og eitthvað lítið með því en þær missa sig ekki í kökur og kex. Og jógúrt er eitthvað sem franskar konur grípa í á milli mála enda mikið borðað af jógúrt í Frakklandi.
En þær borða ekki á hlaupum heldur bíða eftir því að geta sest niður og borðað í ró og næði. Í þeirra huga er mikilvægt að setjast niður, borða hægt, njóta matarins og virkilega finna bragðið af honum.
Hreyfa sig
Franskar konur vita að það er nauðsynlegt að vera virkur og hreyfa sig. En allt innan eðlilegra marka þó og án þess að gera út af við sig – því til hvers að vera að pína sig!
Þær ganga mikið og velja t.d. frekar stigann en lyftuna – en slíkt getur skipt sköpum.
Allt er gott í hófi
Það hentar frönskum konum ekki að telja stöðugt hitaeiningar. Í þeirra huga er matur unaður og hann veitir þeim gleði – sé hans gætt í hófi.
Frakkar kunna einfaldlega listina að lifa og njóta!