Skap kvenna getur verið misviðkvæmt fyrir öllu því hormónahoppi sem fylgir breytingaskeiði, og upplifa sumar konur þunglyndi í fyrsta skipti á ævinni þegar þær fara í gegnum þetta tímabil.
Margt er hægt að gera til þess að sporna við skapsveiflum breytingaskeiðsins. Þetta er síður en svo vonlaus barátta.
Þú getur t.d. byrjað á því að skoða lífshætti þína eins og mataræði, áfengisneyslu, hreyfingu og fleira.
Hvað og hvernig þú borðar
Hvað þú borðar skiptir máli þar sem ákveðnar fæðutegundir geta ýtt undir skapsveiflur. Matvara sem er rík af flóknum kolvetnum, eins og ferskir ávextir, grænmeti, kornmeti og baunir er góður kostur. Kolvetni eru einn helsti orkugjafi líkamans en ráðlagt er að neyta frekar flókinna kolvetna en einfaldra. Fæða sem inniheldur einföld kolvetni er til dæmis kökur, kex og sælgæti.
Skynsamlegt er að borða reglulega yfir daginn og alls ekki sleppa morgunmatnum. Mataræðið ætti einnig að innihalda fæðutegundir með hæfilegu magni af kalki og járni.
Hreyfing
Gildi hreyfingar verður víst seint ofmetið. Hreyfing er okkur nauðsynleg til að lifa góðu lífi. Þú getur aukið lífsgæðin með hreyfingu en góður sundsprettur eða kröftugur göngutúr getur gert heilmikið fyrir sálina ekki síður en líkamann.
Hreyfingin virðist draga úr streituhormóninu kortisól í líkamanum en magn þess eykst í blóðinu þegar fólk er stressað. Það er sannað að birta (sólarljós) léttir lundina svo það er um að gera að hreyfa sig úti við þegar tækifæri gefst.
Streita
Minnkaðu álagið og ekki láta streituvaldana taka stjórnina. Á þessum aldri hafa margar konur áhyggjur af því að eldast. Sumar eru líka daprar yfir að vera ekki lengur í barneign. Hvort tveggja getur hækkað streitustuðulinn.
Sama má segja um sambönd, frama, fjölskylduna og heilsuna. Streita veikir ónæmiskerfið og við verðum viðkvæmari fyrir ýmsum líkamlegum og andlegum kvillum, þar á meðal þunglyndi.
Neikvætt hugarfar
Neikvæðni eitrar út frá sér og þeir sem eru neikvæðir eru líklegri til að verða þunglyndir. Neikvætt hugarfar getur valdið sjúkdómum og vanheilsu og þeir einstaklingar sem eru neikvæðir þjást frekar af ýmsum líkamlegum kvillum.
Rannsókn sem framkvæmd var við John Hopkins háskólann í Bandaríkjunum leiddi í ljós að jákvætt viðhorf er til dæmis besta vörnin fyrir fólk í áhættuhópi fyrir hjartasjúkdóma.
Þá sýndi rannsókn sem birt var í Journal of the American Medical Association árið 2004 að 23 prósent minni líkur eru á að jákvætt fólk látist af völdum hjartasjúkdóma, og að þeir sem hafa jákvætt viðhorf eru einnig 55 prósentum ólíklegri til að látast fyrir aldur fram af völdum annarra orsaka.
Það er því kristaltært að neikvæðni getur stytt lífið og ýtt undir þunglyndi.
Jákvætt hugarfar
Mikilvægt er að láta ekki neikvætt hugarfar ná tökum á sér og stjórna lífi sínu. Hugsaðu um hvað þú ert að hugsa og leitastu við að vera jákvæð. Rannsóknir styðja við þá fullyrðingu að jákvæðni sé allra meina bót. Lífið er allt of stutt til að eyða því í neikvæðni. Það er svo miklu skemmtilegra að lifa ef við ákveðum að lifa lífinu jákvæðar.
Ef við erum jákvæðar eru líka mun minni líkur á depurð eða að við þróum með okkur þunglyndi. Auk þess þykir sannað að jákvætt fólk er almennt líkamlega hraustara og lifir lengur.
Jóna Péturs – kokteillinn@gmail.com