Ég hef verið að taka húsgögnin á heimilinu aðeins í gegn og þá sérstaklega þau sem eru gerð úr viði. En eins og allir þeir sem eru með viðarhúsgögn þekkja þá láta þau á sjá með tíð og tíma.
Tvær aðferðir sem gáfust misvel
Þess vegna fór ég á stúfana að leita leiða til að flikka upp á þrjú borð sem ég er með og hvað væri hægt að gera til að þau litu betur út. Ég endaði á því að prófa tvær aðferðir sem gáfust misvel.
Sú seinni sem ég prófaði steinliggur og verður notuð aftur þegar á þarf að halda. Ekki nóg með að hún hafi svínvirkað heldur er hún alveg einstaklega einföld, fljótleg, þægileg, ódýr… og náttúruleg. Það getur bara ekki verið betra.
Kosturinn við þessa aðferð er líka sá að það þarf ekki að gera sér ferð í verslun til að kaupa rándýr efni því flestir eiga það sem til þarf í eldhússkápunum hjá sér.
Það sem þarf
¼ bolli edik (ég notaði eplaedik)
¾ bolli ólífuolía
Þessu er einfaldlega blandað saman.
Og svo er notaður hreinn og mjúkur klútur til að bera blönduna á húsgagnið.
Það má dýfa klútnum í blönduna en ég hellti bara með skeið á borðið og setti meira þar sem voru blettir og mikill þurrkur. Svo þurrkaði ég yfir og nuddaði blöndunni vel inn í viðinn.
Þetta endurtók ég nokkrum sinnum – en það fer auðvitað alveg eftir ástandi húsgagnsins hversu mikið og oft þarf að bera á það.
Frábær árangur
Árangurinn er frábær og borðin eru eins og ný.
Það sem blandan gerir er að hún fyllir upp í litlar rispur, felur bletti eins og eftir glös og slíkt og nærir viðinn svo hann verður aðeins dekkri og meira glansandi (án þess þó að glansa of mikið).
Mæli fullkomlega með þessu ef þið viljið flikka upp á t.d. tekkhúsgögn og annað slíkt.
Hugmyndina fékk ég há Naturehacks.
jona@kokteill.is