Í byrjun mars varð ég fyrir því óláni að fótunum var kippt undan mér þegar ég hljóp yfir örsmáan og nær ósýnilegan hálkublett fyrir utan mitt eigið heimili.
Ég lenti illa og mölbraut á mér hægri ökklann. Áverkarnir kröfðust viðamikillar aðgerðar og ísetningar tveggja platna og á annan tug nagla og skrúfa. Læknirinn útskýrði í framhaldinu fyrir mér að næstu tólf vikur mætti ég ekki svo mikið sem stíga í fótinn.
Nú, þegar hyllir undir lok þess tímabils sem kunnugir sem ókunnugir töldu nær víst að myndi ganga fram af annars atorkusamri konu, þá langar mig að deila með ykkur dýrmætum lexíum sem í þessu verkefni hafa falist.
Að læra að biðja um og þiggja hjálp
Það er vissulega áfall fyrir fullfríska og sjálfstæða manneskju sem aldrei hefur brotið eitt einasta bein að missa getuna til að sjá um sig sjálf. Að þurfa að biðja aðra um aðstoð við að baða sig, klæða og næra var mér alls ekki auðvelt en það var lærdómsríkt að þurfa að gera það. Að átta sig á því að seiglu og sjálfstæði eru stundum takmörk sett og að öll þurfum við á öðrum að halda.
Ég er óendanlega þakklát öllum þeim vinum og vandamönnum sem hafa heimsótt mig á rúmstokkinn og í sófann, fært mér andlega og líkamlega næringu, farið fyrir mig í útréttingar og sent mér góðar óskir og endalausa hlýju. Þið kennduð mér að þiggja hjálp með þökkum og ég er þakklátari en nokkru sinni fyrir að eiga svo marga góða að og að vera einstaklega vel gift.
Að vera til staðar
Ýmsir sem standa mér nærri áttu von á því versta þegar athafnakonan sem alltaf er á fullri ferð varð skyndilega svo kyrfilega kyrrsett. Það rigndi yfir mig hugmyndum um hvað ég gæti gert til að drepa tímann, til að komast í gegnum að því er virtist óyfirstíganlega hindrun fyrir manneskju eins og mig, að gera ekkert af viti. Sjálf hafði ég af þessu nokkrar áhyggjur og sankaði að mér ábendingum um góðar bækur og vandað sjónvarpsefni og gerði áætlanir um fjölmörg verkefni sem ég ætlaði að nýta þennan tíma í. Ég ætlaði að vera dugleg, enda alin upp við að dugnaður sé mesta dyggðin.
Ég hef í hreinskilni sagt komið bæði sjálfri mér og öðrum á óvart. Verkefnið sem ég fékk er líkamlega krefjandi og hversu mikið sem hugurinn reynir, þá hefur líkaminn sett mér skorður og ég hef fyrst og fremst verið dugleg að hvíla mig og setja bata í forgang. Ég hef vissulega notið þess að hafa tíma til að horfa, hlusta á og lesa fróðleik og skemmtiefni af ýmsum toga, en ég hef notið þess mest að vera bara til staðar. Vera til staðar þegar börnin koma heim úr skólanum, vera til staðar fyrir sjálfa mig, vera hvorki að fara né koma, heldur bara vera.
Að eiga alvöru samræður
Þegar fólk heimsækir mann á rúmstokkinn víkja innihaldsminni samræður eins og: “Er brjálað að gera?” eða “Hvað á að gera um helgina?” fyrir dýpri og þýðingarmeiri umræðum. Ég hef síðustu vikur átt sérlega nærandi samtöl við vini og vandamenn.
Þegar manneskja liggur berskjölduð og bjarglítil í rúminu er auðveldara fyrir aðra að opna sig og taka þátt í dýpri umræðum um tilgang lífsins, hvað skiptir mann raunverulega máli og hvernig nýta má erfiðu verkefnin í lífinu til þess að vaxa og þroskast. Ég hef notið þess að þiggja hjálp og visku annarra og ég hef lagt mig fram um að gefa til baka í einlægni með þeim sem það þiggja.
Góð vinkona mín og lærimóðir hefur oft haft það á orði að hún velji helst að vera í félagsskap sem leitar hratt í dýptina (friends who go deep fast). Ég held ég hafi aldrei skilið hana betur, enda er slíkur félagsskapur og þannig umræður sérlega nærandi.
Að setja sér mörk og segja nei án samviskubits
Það reyndist mér alls ekki auðvelt að þurfa að afboða mig í fjölmörg verkefni sem ég hafði tekið að mér frá Singapore til Svíþjóðar. Í fyrstu fann ég fyrir gríðarlegu samviskubiti yfir því að bregðast fólki og fyrirtækjum sem ég hafði unnið að undirbúningi með svo mánuðum skipti. Fjölmargir fengu svo til viðbótar þá hugmynd að þeir gætu bjargað mér frá því að missa vitið með því að biðja mig um að aðstoða sig og/eða taka að mér ýmis ný verkefni. Ég er öllu því fólki þakklát fyrir að hugsa til mín og sýna áhuga á að virkja mína hæfileika þó úr rúminu væri. Ég veit að allir meintu það vel.
Ég tók hinsvegar strax þá ákvörðun að einbeita mér heilshugar að því augljósa verkefni sem ég stóð frammi fyrir og taka engin ný verkefni að mér fyrr en ég hefði sinnt því verkefni að ná heilsu á ný. Ég veit að margir urðu hissa á þessari ákvörðun minni og hversu fast ég hef staðið með henni. Ástæðan er ekki síst að í þessari stöðu fólst tækifæri til að læra að setja mörk og segja nei án samviskubits. Einn minn helsti kostur (sem er endalaus kraftur og áhugi á allskonar og öllu) verður nefnilega oft minn stærsti löstur (að gera endalaust og allskonar á kostnað sjálfs míns og þeirra sem mér þykir vænt um). Það felst mikið frelsi í því að geta sagt nei, að kunna sér takmörk. Ég bið ykkur sem upplifðuð höfnun að fyrirgefa, ég kem á endanum sterkari til baka og hef meira að gefa.
Að setja sig í spor annarra
Þegar ég starfaði í Bandaríkjunum sem starfsmannastjóri þá gerðum við þá kröfu til stjórnenda og starfsmanna að þeir gengju nokkra daga á ári í störf annarra. Við kölluðum þetta “Walk in my shoes days” og það sýndi sig að þetta jók auðmýkt okkar og skilning á mikilvægi allra starfa og starfsmannna fyrirtækisins.
Ég hef síðustu vikurnar fengið einstakt tækifæri til að setja mig í spor þeirra sem ekki búa við þau forréttindi að ganga á tveimur jafnfljótum. Ég horfi nú öðrum augum en áður á þröskulda, þröng dyraop og sturtuklefa, svo fátt eitt sé nefnt. Sjónarhorn mitt er nú allt annað, auðmýktin meiri og skilningurinn á stöðu þeirra sem ekki búa við mín forréttindi er dýpri.
Að velja sér viðhorf
Vinir mínir hafa margir hverjir haft það á orði að það bjargi mér í þessum aðstæðum að ég sé svo jákvæð og bjartsýn að eðlisfari. Ég veit ekki hvort að það sé rétt mat vina minna að þetta séu eðlislægir eiginleikar í mínu fari, en ég veit að ég VEL frekar jákvæðni en neikvæðni og frekar bjartsýni en svartsýni.
Staðreyndin er að ég hefði getað fengið miklu erfiðara verkefni og margir glíma svo sannarlega við óendanlega erfið verkefni í sínu lífi. Ég gleymi því ekki í eina mínútu að vera þakklát fyrir að hafa fengið þetta verkefni, sem hefur kennt mér margt og mun með tíma og þolinmæði taka enda.
Halla Tómasdóttir
Pistill Höllu birtist á bloggi hennar hallatomasdottir.is