Brauðtertur hafa lengi verið vinsælar og eru fastur liður á veisluborðum okkar Íslendinga – enda oft það fyrsta sem klárast af borðinu.
Hér er uppskrift að svolítið öðruvísi brauðtertu en hún er matarmikil og minnir kannski einna helst á klúbbsamloku.
Þessa brauðtertu, sem hún Svava á Ljúfmeti og lekkerheit deilir hér með okkur, er tilvalið að bjóða upp á í partýum, veislum og útskriftum. Eða bara fyrir fjölskylduna því hún dugar vel sem kvöldmatur enda bæði með kjúklingi og beikoni.
Tertan er það matarmikil að hún ætti að duga fyrir um tíu manns.
Það sem þarf
- 200 g beikonstrimlar
- 1 grillaður kjúklingur
- 10 sólþurrkaðir tómatar í olíu
- 1 dl majónes
- 3 dl hreint jógúrt
- 1 dl graslaukur, skorinn fínt
- 1 tsk dijonsinnep
- 1/2 tsk salt
- smá svartur pipar
- 18 franskbrauðsneiðar
- 400 g Philadelphia ostur, við stofuhita
- kirsuberjatómatar
- klettasalat
Aðferð
Steikið beikonið á pönnu. Látið fituna renna af og leggið beikonið til hliðar.
Hreinsið kjúklingakjötið frá beinunum og skerið í smáa bita.
Hakkið sólþurrkuðu tómatana.
Blandið sólþurrkuðum tómötum, majónesi, jógúrti, graslauk, sinnepi, salti, pipar, kjúklingi og beikoni saman í skál.
Skerið kantinn af brauðsneiðunum.
Leggið 6 brauðsneiðar á fat og setjið helminginn af fyllingunni yfir.
Leggið aðrar 6 brauðsneiðar yfir fyllinguna og setjið það sem eftir er af fyllingunni yfir.
Leggið síðustu 6 brauðsneiðarnar yfir.
Setjið plastfilmu yfir og látið standa í ísskáp í 3-4 klst. Smyrjið philadelphia ostinum meðfram hliðunum og yfir brauðtertuna.
Skreytið með klettasalati og kirsuberjatómötum.
Svava – Ljúfmeti og lekkerheit