Maður getur alltaf á sig bætt nýjum uppskriftum að súkkulaðikökum. Það er nefnilega ekki hægt að fá leið á súkkulaði… ekki satt!
Hér er ein dásamlega góð með Oreo kexi – dúnmjúk og blaut í sér. En hún Svava á Ljúfmeti og lekkerheit deilir hér með okkur uppskrift að þessu góðgæti. Svava segir Oreo kexið gefa þessari mjúku köku ákveðið „kröns“.
Það sem þarf
- 200 g suðusúkkulaði
- 150 g smjör
- 175 g púðursykur
- 4 egg
- 5 msk hveiti
- 1 tsk salt
- 1 pakki Oreo kex (gott að nota með tvöfaldri fyllingu), sparið nokkrar kexkökur ef þið viljið setja yfir kremið
Aðferð
Hitið ofn í 180°.
Hrærið egg og púðursykur saman.
Bræðið smjör og súkkulaði saman í potti og blandið við eggja- og púðursykurblönduna.
Hrærið hveiti og salti saman við (athugið að þeyta ekki).
Hakkið Oreokexið og blandið helmingnum af því í deigið.
Setjið deigið í form (24 cm) og stráið seinni helmingnum af Oreokexinu yfir.
Bakið í 30 mínútur.
Krem
- 100 g mjúkt smjör
- 50 g sigtað kakó
- 200 g flórsykur
- 1 tsk vanillusykur
- ½ dl mjólk
Hrærið smjör og kakó saman í skál.
Hrærið flórsykri og vanillusykri saman við.
Bætið mjólkinni smátt og smátt saman við þar til réttri áferð er náð. Hrærið áfram í nokkrar mínútur, svo deigið verði létt í sér og mjúkt.
Setjið kremið yfir kalda kökuna.
Njótið!