Ég er alveg afskaplega veik fyrir kartöfluréttum og finnst gaman að prófa nýjar uppskriftir. Enda eru kartöflur mitt uppáhalds meðlæti – og þá skiptir engu máli hvort það eru gular, rauðar eða sætar kartöflur.
Þessar sætu kartöflur prófaði ég um daginn og var alveg einstaklega ánægð með þær. Þetta er svona spariútgáfa og ekki eitthvað sem maður býður upp á dags daglega. En góðar voru þær og því komnar á listann yfir það sem verður gert aftur og aftur.
Það sem þarf
2 meðalstórar sætar kartöflur
1 msk matarolía (ég notaði ólífuolíu)
sjávarsalt og svartur pipar
2 msk smjör, bráðið
1 tsk kanill
¼ bolli niðurskornar pekanhnetur
¼ bolli hlynsíróp
½ tsk vanilludropa
½ tsk salt
Aðferð
Hitið ofninn að 210 gráðum.
Skerið sneiðar í kartöflurnar, en ekki skera alveg niður. Ágætt er að setja kartöflurnar á milli tveggja matarprjóna á meðan þær eru skornar svo ekki sé skorið í gegn.
Setjið kartöflurnar í ofnskúffu eða í grunnt fat og smyrjið með olíunni – kryddið með salti og pipar.
Bakið í ofninum í 30 til 40 mínútur, eða þar til kartöflurnar eru orðnar mjúkar.
Takið þær þá út úr ofninum og hækkið hitann í 230 gráður.
Takið skál og hrærið bráðnu smjöri, kanil, hnetum, sírópi, vanilludropum og salti saman.
Dreifið úr blöndunni yfir kartöflurnar með skeið og gætið þess að hneturnar fari á milli sneiðanna.
Setjið þá aftur inn í ofn og bakið í 8 til 10 mínútur til viðbótar.
Takið kartöflurnar út úr ofninum og notið skeið til að ná vökvanum úr skúffunni eða forminu og dreifið vel yfir kartöflurnar.
Leyfið að kólna örlítið áður en þær eru bornar fram.
Njótið!
Sjáðu enn betur hér í myndbandinu hvernig þetta er gert
jona@kokteill.is