Fylgifiskar breytingaskeiðs eru margir en einn sá algengasti og umtalaðasti er klárlega hitakófin.
En hvað er það sem gerist við hitakóf og af hverju stafa þau?
Eftir að heiftarlegt hitakóf heltekur þig færist roði fram í húðina og sviti sprettur fram. Svitinn getur orðið það mikill að þú rennblotnir og neyðist til að skipta um föt (að minnsta kosti að ofan).
En svitinn getur þó líka einskorðast við andlitið og aðeins komið svitarák á efri vörina. Á eftir er ekki ólíklegt að setji að þér hroll sem varir í stutta stund þar til líkamshitinn nær aftur jafnvægi. Afar misjafnt er hvenær og hversu oft hitakóf geta blossað upp, hvað þá hvernig þau lýsa sér eða hversu lengi þau vara í hvert skipti. Hér er engin þumalputtaregla sem hægt er að styðjast við.
Hitakóf sem vara í 30 mínútur
Hægt er að fá hitakóf nokkrum sinnum á dag og jafnvel á klukkustundarfresti. Köstin geta staðið yfir í nokkrar sekúndur eða nokkrar mínútur. Dæmi eru þó um konur sem fá hitakóf er standa yfir í 30 mínútur og allt upp í klukkustund – ekki öfundsvert hlutskipti það. En venjulega standa þau yfir frá hálfri mínútu og upp í fimm mínútur. Þá er einnig mismunandi hversu lengi þetta tímabil hitakófa stendur yfir.
Sumar konur fá aðeins eitt og eitt hitakóf í eitt eða tvö ár en aðrar þurfa að glíma við þetta í mörg ár. Þrátt fyrir að flestar konur fái væg eða meðalheit kóf þá fá tíu til fimmtán prósent kvenna svo svæsin köst að þær þurfa að leita til sérfræðings. Ef tíð og áköf hitakóf trufla þig við dagleg störf skaltu leita til sérfræðings, sérstaklega ef þeim fylgir óútskýranlegt þyngdartap en það getur bent til annarra læknisfræðilegra vandamála.
Þegar hitakóf skellur á getur verið gott að láta kalt vatn renna yfir hendur, úlnlið og olnbogabót.
Hvað er það sem gerist?
Ekki er vitað nákvæmlega hvað gerist í líkamanum þegar hitakóf skellur á en talið er að einhvers konar breytingar á taugakerfi heilans eigi þar hlut að máli. Auðvitað koma hinir blessuðu hormónar við sögu og allt þeirra hopp og hí en auk þess geta lifnaðarhættir og lyfjataka spilað inn í.
Talið er að þessar breytingar á taugakerfinu hafi áhrif á undirstúku heilans. Undirstúkan, sem í sjálfu sér er frekar smá, liggur yfir þeim hluta heilans sem nefndur er heiladingull. Þrátt fyrir smæð sína stjórna kjarnar í undirstúkunni starfsemi líkamans að mörgu leyti. Helsta hlutverk stúkunnar felst meðal annars í því að stjórna losun margra hormóna frá heiladingli sem gerir hana um leið að tengilið milli taugakerfis og innkirtlakerfis.
Þessi tvö kerfi eru talin helstu stjórnkerfi líkamans. Þá stjórnar undirstúkan einnig líkamshita, blóðþrýstingi og tengist tilfinningum eins og sársauka, vellíðan, reiði og árásargirni.
Í kjölfar mikilla hitakófa, sérstaklega þegar þau standa yfir í 15 mínútur eða meira, finna konur fyrir ógleði, höfuðverk og þróttleysi.
Kröftugri hitakóf eftir tíðahvörf
Þegar undirstúkan skynjar vandamál stekkur hún beint í aðgerðir til að laga það sem er að. Því er ekki ólíklegt að þetta hormónahopp rugli undirstúkuna sem vill hafa allt í jafnvægi. Þegar hitakófin skella á fær undirstúkan viðvörun frá heilanum um að líkaminn sé of heitur. Hún bregst samstundis við svo hjartað dælir hraðar og æðarnar í húðinni víkka til að hleypa meira blóði í gegn í því skyni að lækka hitann. Svitakirtlarnir losa síðan svita til að kæla líkamann enn frekar.
Þetta er mjög fullkomið kerfi sem sér meðal annars til þess að líkami okkar hitni ekki um of þegar við erum úti í miklum hita. En þegar ferlið fer í gang vegna hormónahopps geta ruglingsleg viðbrögð heilans valdið okkur mikilli vanlíðan. Hrollurinn sem fylgir í kjölfar hitakófsins er einmitt afleiðing þessarar kælingar en líkaminn kælir sig þegar hann ætti ekki að gera það. Eftir sitjum við sveittar og blautar og langar mest til að öskra.
Talið er að konur megi búast við kröftugri hitakófum ef tíðahvörfin ganga hratt yfir og reglulegar blæðingar hætta á skömmum tíma.
jona@kokteill.is