Hvað er betra en súkkulaðikaka?
Ef það er eitthvað þá er það klárlega frönsk súkkulaðikaka.
Það er endalaust hægt að leika sér með uppskriftir að súkkulaðikökum og möguleikarnir nærri óþrjótandi. Og hér er ein sem er vel þess virði að prófa.
Hún Valla í Eldhúsinu hennar Völlu skellti í þessa frönsku súkkulaðiköku um daginn og hún lukkaðist svona ljómandi vel. Súkkulaði og lakkrís klikkar ekki.
Það sem þarf
4 egg
2 dl sykur
1 dl hveiti
100 gr 70% súkkulaði
100 gr suðusúkkulaði
200 gr smjör
Þristakrem
1 poki litlir þristar
3 msk rjómi (má setja smá slettu í viðbót ef það reynist erfitt að bræða þristana)
Aðferð
Hitið ofninn í 170°C og hafið stillt á blástur.
Setjið eggin og sykurinn í skál og þeytið mjög vel þar til blandan er orðin létt og ljós.
Bræðið smjörið við vægan hita í potti og bætið súkkulaðinu saman við. Bræðið saman en passið að brenna ekki. Kælið aðeins.
Sigtið hveitið út í eggjablönduna og blandið saman við með sleikju.
Látið því næst súkkulaðiblönduna út í í mjórri bunu og hrærið varlega með sleikjunni svo loftið fari ekki úr deiginu.
Hellið í vel smurt bökuform, tertuform eða eldfast mót í stærri kantinum og bakið í 30 mín.
Á meðan kakan bakast er gott að skera þristana í bita, setja í lítinn pott ásamt rjómanum og bræða saman rólega.
Þegar allt er bráðið saman (lakkrísinn bráðnar auðvitað ekki), takið þá pottinn af hellunni.
Þegar kakan er tilbúin, kælið hana í nokkrar mínútur áður en kreminu er dreift yfir.
Gott er að bera fram söxuð jarðarber og rjóma með kökunni, eða jafnvel vanilluís.
Njótið!