Það er ekkert launungarmál að kartöflur eru uppáhalds meðlætið okkar og þreytumst við hér á Kokteil seint á því að prófa nýjar kartöfluuppskriftir.
Það er nefnilega hægt að leika sér endalaust með kartöflur og svo passa þær með næstum því öllu.
Nýtt tvist
Hér er uppskrift að frábærum kartöflum – en þetta er nýtt tvist á Hasselback kartöfluna. Í þessa uppskrift eru notaðar minni kartöflur en venjulega en það kemur afar vel út og þær eru einstaklega góðar.
Óhætt að mæla með þessum!
Það sem þarf
Kartöflur, ca 20 stk, litlar en ekki of litlar og alls ekki stórar
3 msk ólíufolía
1 ½ msk bráðið smjör
3 hvítlauksrif, kramin
sjávarsalt
nýmulinn svartur pipar
¼ bolli parmesanostur, niðurrifinn
steinselja, til að skreyta og krydda með ef vill
Aðferð
Hitið ofninn að 205 gráðum.
Byrjið á því að þvo og þurrka kartöflurnar.
Skerið sneiðar í kartöflurnar, en gætið þess að skera ekki alla leið í gegn. Ágætt er að leggja kartöflurnar í sleif á meðan skorið er því þannig má koma í veg fyrir að skera í gegn.
Leggið kartöflurnar á bökunarpappír á ofnplötu.
Blandið bráðnu smjörinu, ólífuolíu og hvítlauk saman.
Berið síðan blönduna á kartöflurnar með pensli.
Saltið og piprið kartöflurnar.
Bakið í ofninum í 20 mínútur.
Takið þá kartöflurnar út og berið smjörblönduna aftur á þær og dreifið mestu af parmesanostinum yfir (skiljið örlítið eftir).
Setjið aftur inn í ofn og bakið í aðrar 20 mínútur, eða þar til kartöflurnar eru orðnar gylltar.
Takið út úr ofninum og dreifið restinni af parmesanostinum yfir og steinselju ef vill.
Berið strax fram og njótið!
Jóna Péturs – kokteillinn@gmail.com