Núðlusúpur hafa verið vinsælar hér á landi um margra ára skeið og margir sem kaupa þær tilbúnar.
En heimagert er auðvitað alltaf best. Þessa tælensku súpu hér tekur enga stund að útbúa en það kemur síður en svo niður á bragði hennar – því hún er mjög bragðmikil en þó án þess að vera sterk.
Hnetusmjörið gefur gott bragð en er þó ekki yfirgnæfandi. Og síðan setja kóríander og salthnetur punktinn yfir i-ið.
Sem sagt æðisleg núðlusúpa sem hún Svava vinkona okkar á Ljúfmeti og lekkerheit deilir hér með okkur.
Tælensk núðlusúpa með kjúklingi og sætum kartöflum (uppskrift fyrir 4-5)
- 1 dós kókosmjólk
- 1/4 bolli rautt karrýmauk (red curry paste), t.d. frá Blue Dragon.
- 4 bollar vatn
- 2 kjúklingateningar
- 450 g kjúklingabringur eða lundir, skornar í bita
- 1 bolli sæt kartafla, afhýdd og skorin í teninga
- 1/3 bolli hnetusmjör
- 1 msk tamarind sósa eða 1/4 bolli limesafi
- 2 msk fiskisósa (fish sauce) eða sojasósa
- 2 msk púðursykur
- 1/2 tsk turmerik
- 1 rauð paprika, skorin í þunnar sneiðar
- 160 g núðlur (rice noodles)
- 2 bollar baunaspírur
- 1/4 bolli ferskt kóriander
- 1/4 bolli salthnetur
- vorlaukur, sneiddur
Hitið þykka hlutann sem er efst í kókosmjólkurdósinni í rúmgóðum potti yfir miðlungsháum hita.
Bætið karrýmaukinu saman við og látið sjóða saman í um mínútu.
Bætið því sem eftir er í kókosmjólkurdósinni saman við ásamt vatni, kjúklingateningum, sætum kartöfluteningum, hnetusmjöri, tamarind sósu, fiskisósu, púðursykri og turmerik.
Látið suðuna koma upp, lækkið hitann og látið sjóða við vægan hita þar til kjúklingurinn er fulleldaður og sætu kartöflurnar mjúkar. Það tekur um 7-10 mínútur, eftir því hvað bitarnir eru stórir.
Bætið papriku og núðlum í pottinn og sjóðið þar til núðlurnar eru mjúkar, það tekur um 5 mínútur. Bætið baunaspírum saman við og takið síðan af hitanum.
Berið núðlusúpuna fram með kóriander, hökkuðum salthnetum og vorlauki.
Og njótið!