Þrengsli og stíflur í kransæðum eru meðal stærstu og alvarlegustu sjúkdóma mannkyns. Kransæðasjúkdómur hrjáir þúsundir Íslendinga og er algengasta dánarorsök landsmanna. Í heiminum öllum valda hjarta- og æðasjúkdómar um 17,3 milljónum dauðsfalla á ári og er því spáð að sú tala muni ná 23,6 milljónum árið 2030.
Lífsstíll okkar
Helstu áhættuþættir kransæðasjúkdóms eru vel þekktir. Fjöldi faraldsfræðilegra rannsókna hefur sýnt að reykingar, hátt LDL kólesteról, hár blóðþrýstingur, sykursýki, ættarsaga og streita tengjast aukinni hættu á því að þróa með sér kransæðasjúkdóm.
Áhættuþættirnir eiga það flestir sameiginlegt að tengjast náið þeim lífsstíl sem við temjum okkur. Með lífsstílsbreytingum er því hægt að hafa jákvæð áhrif á áhættuþættina og þannig draga úr líkum á því að fá kransæðasjúkdóm. Síðastliðinn aldarfjórðung hefur dánartíðni vegna kransæðasjúkdóma á Íslandi lækkað, en einungis fjórðungur af lækkuninni skýrist af allri meðferð við kransæðasjúkdómi en þrír fjórðu hlutar skýrast af bættri stöðu algengustu áhættuþátta.
Lítill munur milli karla og kvenna
Tíðni kransæðasjúkdóms eykst með vaxandi aldri, bæði meðal karla og kvenna. Þar sem karlar fá sjúkdóminn fyrr á lífsleiðinni er oft talað um karlkyn sem áhættuþátt. Þegar litið er á heildarnýgengi og dánartíðni fyrir alla aldurshópa er munurinn milli karla og kvenna þó lítill sem enginn, þar sem konur lifa lengur en karlar. Líkurnar á að fá kransæðasjúkdóm aukast ef nánustu ættingjar (foreldrar, systkini eða börn) hafa sjúkdóminn. Ættarsaga skýrist þó ekki bara af erfðamenginu heldur einnig af lífsstíl. Ef einstaklingur reykir, borðar óhollan mat og hreyfir sig lítið aukast líkurnar verulega á því að maki og börn tileinki sér svipaða lifnaðarhætti.
Óbeinar reykingar og rafsígarettur
Reykingar eru alvarlegasti áhættuþáttur kransæðasjúkdóms og valda ótímabærum dauðsföllum hjá helmingi þeirra sem reykja. Þeir sem reykja eru almennt í tvöfaldri hættu á því að deyja af völdum hjarta- og æðasjúkdóma, en konur og yngri karlmenn eru í fjórfaldri til fimmfaldri áhættu. Skaðsemi reykinga eykst í beinu hlutfalli við magnið sem reykt er og ekki hafa verið skilgreind lægri mörk þess sem óhætt er að reykja án þess að það skaði heilsuna. Óbeinar reykingar eru skaðlegar heilsu þeirra sem ekki reykja og auka áhættuna á kransæðasjúkdómi um þriðjung.
Alþjóðaheilbrigðisstofnunin gerir engan greinarmun á tegundum tóbaks hvað varðar heilsuspillandi áhrif þess og rafsígarettur eru taldar hafa bein og óbein áhrif til að auka skaðleg áhrif tóbaks í samfélaginu. Reykleysismeðferð hvers konar er talin áhrifamesta lýðheilsuaðgerð sem til er næst á eftir bólusetningum barna.
Óbreytanlegir áhættuþættir kransæðasjúkdóma
aldur, kyn, ættarsaga
Breytanlegir áhættuþættir kransæðasjúkdóma
reykingar, offita, hreyfingarleysi, blóðfituröskun, mataræði og áfengi, kæfisvefn, háþrýstingur,
sykursýki, sálrænir og félagslegir þættir
Þessi grein er úr nýju Kransæðabókinni sem kom út á síðasta ári.
Tómas Guðbjartsson, hjartaskurðlæknir
Mynd: Kristinn Ingvarsson