Í gegnum tíðina hafa fjölmargar útivinnandi mæður haft nagandi samviskubit yfir því að vera of mikið í burtu frá börnum sínum. Og margar þeirra hafa á köflum upplifað sig sem ekki nógu góðar mæður.
Ekki svo slæmt
En nú geta allar þessar mæður andað léttar því samkvæmt rannsóknum er þetta ekki talið há börnunum til langs tíma litið.
Rannsókn sem framkvæmd var við Harvard Business School í Bandaríkjunum þykir sýna fram á að dætur útivinnandi mæðra standi sig vel þegar út á vinnumarkaðinn er komið. Dæturnar eru taldar líklegri til að vera útivinnandi og sinna ábyrgðar- og yfirmannstöðum. Þá eru þær einnig líklegri til að hafa hærri laun en dætur þerra kvenna sem ekki vinna út.
Synirnir líka
Samkvæmt rannsókninni er það einnig talið hafa áhrif á drengi ef móðirin er útivinnandi. En niðurstöður hennar bentu til þess að þeir synir sem eiga útivinnandi mæður séu umhyggjusamari – en þeir voru líklegri til að eyða meiri tíma í að hugsa um og sinna fjölskyldumeðlimum sem og að sinna húsverkum.
Í rannsókninni tóku einstaklingar frá 24 löndum þátt og þótt munurinn á milli dætra útivinnandi mæðra og hinna heimavinnandi væri innan við 5 prósent þóttu niðurstöðurnar áhugaverðar, sérstaklega þegar horft er á heildarmyndina. En enn meiri munur var hins vegar á milli þess hversu margar dætur útivinnandi mæðra sinntu ábyrgðar- og yfirmannsstöðum á móti hinum sem áttu heimavinnandi mæður.
Þeir sem að rannsókninni stóðu telja að það hafi jákvæð áhrif á börn að mæður þeirra séu útivinnandi og með því hjálpi mæður börnum sínum til þess að skilja og átta sig á því að það eru ótal tækifæri fyrir þau úti í lífinu.