Ein stærsta viðurkenning sem veitingastaðir geta öðlast er að fá Michelin stjörnu. Og hingað til hefur enginn veitingastaður hér á landi skartað slíkri stjörnu.
Dill er staðurinn
En nú hefur orðið breyting á því veitingstaðurinn Dill við Hverfisgötu 12 hefur öðlast þessa eftirsóttu viðurkenningu. Og við hér á Kokteil gleðjumst óskaplega yfir því og óskum þeim á Dill innilega til hamingju.
Erfitt að fá borð
Í langan tíma hefur verið erfitt að fá borð á Dill en staðurinn er þéttsetinn þá daga sem hann er opinn og panta þarf borð með margra vikna, ef ekki mánaða, fyrirvara. Maður sem sagt droppar ekkert inn og fær borð. Búast má við því að biðlistinn eftir borði lengist enn frekar eftir þessa miklu viðurkenningu.
Yfirkokkur á Dill er Ragnar Eiríksson matreiðslumaður en hann tók við starfinu í lok árs 2015 þegar Gunnar Karl Gíslason, annar stofnenda Dill, flutti til New York til að standsetja veitingastaðinn Agern sem einmitt hlaut Michelin stjörnu árið 2016. Greinilega ansi færir matreiðslumenn þarna á ferð.