Helstu áhættuþættir kransæðasjúkdóma eru vel þekktir. En kransæðasjúkdómar hrjá þúsundir Íslendinga og er algengasta dánarorsök landsmanna.
Hár blóðþrýstingur hrjáir um þriðjung fullorðinna einstaklinga á Vesturlöndum. Háþrýstingur veldur líka hjartabilun, heilablóð- föllum, útæðasjúkdómi, nýrnabilun og gáttatifi.
Þrjú stig háþrýstings
Hættan á dauðsföllum vegna hjarta- og æðasjúkdóma eykst línulega eða jafnvel í veldisfalli frá blóðþrýstingsgildum 115/75 mmHg.
Blóðþrýstingur fer hækkandi með hærri aldri en telst vera hagstæðastur <120/80, en eðlilegur upp að 130/85. Gildi yfir 130/85 og upp að 140/90 teljast í hærra lagi en yfir þeim mörkum er talað um háþrýsting; fyrsta stigs háþrýsting upp að 160/100, annars stigs háþrýsting upp að 180/110, en gildi þar yfir flokkast sem þriðja stigs háþrýstingur. Áður en greining háþrýstings er staðfest þarf hann að mælast hækkaður við endurteknar mælingar við bestu aðstæður.
Meðferð við háþrýstingi
Blóðþrýstingsmeðferð er með tvennum hætti. Grundvallarmeðferð er lífsstílsmeðferð sem miðar að kjörþyngd, reglubundinni hreyfingu, hollu mataræði og sérstakri hófsemi í saltneyslu. Ef þessi meðferð nægir ekki eða ef blóðþrýstingur er annars stigs eða hærri er hafin meðferð með lyfjum.
Ákvörðun um lyfjameðferð byggist ekki eingöngu á mældum blóðþrýstingsgildum heldur einnig á heildaráhættumati sjúklings. Þannig eru sjúklingar með sykursýki eða staðfestan æðakölkunarsjúkdóm almennt meðhöndlaðir við lægri gildi en þeir sem eru án slíkra áhættuþátta. Val á lyfjum er einstaklingsbundið og fer meðal annars eftir aldri og/eða undirliggjandi sjúkdómi. Mikilvægt er að sjúklingnum sé fylgt eftir og meðferðin endurmetin með reglulegu millibili.
Þessi grein er úr Kransæðabókinni.
Tómas Guðbjartsson, hjartaskurðlæknir