Hjón sem hafa verið gift lengi og átt í hamingjusömu sambandi eru gjarnan spurð hvert leyndarmálið á bak við langt og farsælt hjónaband sé.
En getur verið að leyndarmálið sé svo einfalt að tvö lítil orð skipti þar öllu máli?
Ekki orðin sem þú heldur
Samkvæmt nýlegri rannsókn, sem framkvæmd var í University of Georgia í Bandaríkjunum, getur það skipt sköpum að sýna þakklæti og muna eftir því að nota orðin „takk fyrir“ í sambandinu.
Um 500 pör tóku þátt í rannsókninni þar sem fjárhagsstaða þeirra var skoðuð sem og samskipti við makann.
Þakklæti lykilatriði
Í niðurstöðum rannsóknarinnar kom fram að það sem helst sýndi fram á gott hjónaband var þegar makinn sýndi þakklæti sitt. Þegar hinn aðilinn í sambandinu finnur að hann er metinn að verðleikum og að makinn virði hann hefur það bein áhrif á það hvernig fólk metur hjónaband sitt og hversu skuldbundið það er hjónabandinu.
Því getur skipt öllu máli að sýna þakklæti sitt og segja „takk fyrir“. Ekkert flóknara en það!
Þótt pör lendi í erfiðleikum og vandamál komi upp þá hjálpar þakklætið til að vinna á því á jákvæðan hátt fyrir sambandið.
Rannsóknin sýndi fram á að þegar pör lenda í átökum eða rifrildi getur þakklætið haft ótrúlega góð áhrif á neikvætt andrúmsloftið og eftirmála átakanna.
Hafið þakklætið í huga og munið að þakka makanum fyrir allt – því það er ekkert sjálfsagt né sjálfgefið í þessu lífi!